Vilja lækka laun leikmanna um 70%

epa07042161 FC Barcelona's winger Leo Messi (L) celebrates with midfielder Arturo Vidal (R) after scoring the 1-0 lead during the Spanish Primera Division soccer match between Barcelona and Girona at Camp Nou stadium in Barcelona, Catalonia, Spain,
 Mynd: - - EPA

Vilja lækka laun leikmanna um 70%

25.03.2020 - 20:30
Spænska fótboltastórveldið Barcelona vill draga allverulega úr launakostnaði félagsins á meðan enginn fótbolti er leikinn vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Forráðamenn félagsins stefna að því að lækka laun leikmanna um 70%.

Háar launagreiðslur fylgja því að vera stórveldi á heimsvísu. Barcelona er talið borga um 600 milljónir evra árlega í launakostnað, eða tæplega 92 milljarða króna. Hagnaður félagsins hefur dregist saman undanfarnar vikur vegna ástandsins sem útbreiðsla COVID-19 veirunnar hefur skapað en síðasti leikur Börsunga var þann 7. mars.

Félagið þarf því að draga saman seglin hvað kostnað varðar og hafa eru þessar aðgerðir liður í því. Barcelona er fyrsta spænska liðið sem gefur út áætlun sem þessa en stefnt er að því að lækka laun allra leikmanna í karla- og kvennaliði félagsins auk þjálfarateyma um 70% á meðan ástandið varir.

Líklegt má þykja að önnur spænsk knattspyrnulið fylgi í kjölfarið en forráðamenn spænska knattspyrnusambandsins hafa heitið fjárhagslegum stuðningi við félögin.