Vilja kynna verk Brimars fyrir alþjóð

Mynd: RÚV / RÚV

Vilja kynna verk Brimars fyrir alþjóð

06.03.2017 - 09:28

Höfundar

„Mér finnst kominn tími á það að kynna Brimar fyrir alþjóð þannig að fólk viti hver hann var,“ segir Ragnar Þ. Þóroddsson sem hefur undanfarin misseri safnað upplýsingum um listaverk móðurbróður síns, Jóns Stefáns Brimars Sigurjónssonar, sem var afkastamikill listamaður.

Brimar, eins og hann var alltaf kallaður, var fæddur á Dalvík árið 1928. Hann stundaði ýmis störf um ævina en varði frístundum sínum í listsköpun og þegar hann lést fyrir aldur fram árið 1980, skildi hann eftir mörg hundruð listaverk.

Segja má að verk eftir Brimar séu til á öðru hverju heimili á Dalvík auk þess sem fjöldi verka er í opinberru eigu þar í bæ. En hróður Brimars hefur ekki borist út fyrir héraðið og því vill Ragnar breyta. Hann og Jón Baldvin bróðir hans eru að safna ljósmyndum af verkum Brimars og upplýsingum um þau.

Þeir hafa sett upp heimasíðu um Brimar og hyggja á bókaútgáfu í framtíðinni. 

Landinn hitti þá bræður á Dalvík. Þáttinn í heild er hægt að sjá hér.