Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja koma sögufrægum sundskála í notkun

24.05.2019 - 08:39
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Sundskáli Svarfdæla, ein elsta yfirbyggða sundlaug landsins, stendur afskiptalaus og grotnar niður að óbreyttu. Sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar vonast til að skálanum verði fundið hlutverk en segir að ekki komi til greina að reka þar sundlaug. 

Það þótti mikið afrek á sínum tíma þegar sjálfboðaliðar úr ungmennafélögum á svæðinu tóku sig til og byggðu sundskála í Svarfaðardal, enda var þetta ein af fyrstu yfirbyggðu sundlaugum landsins. Þetta var árið 1929 og því var 90 ára afmæli skálans fagnað sumardaginn fyrsta. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV

Fornfrægt hús sem mörgum þykir vænt um

Skálanum var lokað fyrir sex árum því hann uppfyllti ekki reglur. Síðan hefur skálinn meira og minna staðið auður. Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður harmar ástandið og skorar á ráðamenn sveitarfélagsins að grípa inn í. „Ég held að margir hér á svæðinu beri miklar taugar til þessa húss. Þetta er fornfræg bygging og mönnum þykir vænt um hana og ég held að það vilji enginn sjá hana standa hér afskiptalausa,“ segir Einar Hafliðason gjaldkeri félagsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Einar Hafliðason

Gerðar voru endurbætur innandyra fyrir nokkrum árum og átti að koma skálanum aftur í notkun. Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, segir að það hafi ekki gengið. „Við opnuðum sem sagt sundskálann á meðan var verið að gera gagngerar endurbætur á sundlauginni við íþróttamiðstöðina og það var bara engin aðsókn,“ segir Katrín. 

Farinn að láta á sjá

Síðan hefur engu viðhaldi verið sinnt. „Í rauninni er komin mikil viðhaldsþörf á húsið, kannski að utanverðu sérstaklega. En þetta náttúrulega mun bara grotna niður ef ekkert verður að gert,“ segir Einar. 

Katrín segir aldrei gott þegar hús standa til lengri tíma og Sundskálinn sé farinn að láta á sjá. „Þannig að það er alveg fyrirséð að ef það á að koma einhverju lífi í húsið þá þarf að gera þarna eitthvað meira, en það eru ekki uppi um það neinar áætlanir eins og er,“ segir Katrín. 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Katrín Sigurjónsdóttir

Sveitarfélagið beri ábyrgð á skálanum

Einar segir að stjórn félagsins og aðrir velunnarar Sundskálans vilji að sveitarfélagið eigi áfram mannvirkið. „Við teljum að það sé hlutverk sveitarfélagsins að varðveita þessa byggingu og við viljum auðvitað sjá einhverja starfsemi hér. Þessi sundlauga reglugerð sem var sett fyrir nokkrum árum, og varð til þess að honum var lokað, hefur gert þetta allt mjög erfitt því það þarf gæslu og fleira sem sjálfboðaliðasamtök eiga erfitt með að standa undir,“ segir Einar. „Og við sæjum alveg fyrir okkur að það væri hægt að vera með ungbarnasund eða sundleikfimi eða eitthvað svoleiðis hér,“ segir Einar. 

Katrín segir að sveitarfélagið reki tvær aðrar sundlaugar og vill sjá annars konar starfsemi í skálanum. „Ég hefði náttúrulega helst viljað sjá að einhver félagasamtök tækju þetta upp á arma sína og sæju sér færi á að koma einhverju lífi í þetta hús, því öll viljum við hafa líf í sundskálanum,“ segir Katrín. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV