Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja kanna stöðu barna tíu árum eftir hrun

08.10.2019 - 21:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
 Þingsályktun hefur verið lögð fram á Alþingi um að skipaður verði starfshópur til að meta stöðu barna hér á landi tíu árum eftir hrun. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna er fyrsti flutningsmaður en að tillögunni standa þingmenn úr öllum flokkum. Þetta er í annað sinn sem tillagan er lögð fram.

Í greinargerð segir að full ástæða sé til að meta áhrif hrunsins á stöðu íslenskra barna og líðan, hvar þjónusta við börn var skorin niður og hvort úrbætur hafi verið gerðar. Vert sé að kanna það núna, tíu árum eftir hrun hvort börn hafi fengið og notið bætts efnahagsástands í landinu. 

Lagt er til að starfshópurinn hafi samráð við umboðsmann barna, Barnaverndarstofu, Unicef á Íslandi, Velferðarvaktina, Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur félagasamtök og stofnanir sem málefnið snertir. Lagt er til að starfshópurinn kanni stöðu mála á tíu ára tímabili, frá 2008 til 2018. Engin greining sé til á stöðu barna fædd á árunum 1990 til 2011. Þá vanti heildstætt kerfi um söfnun, vinnslu og greiningu gagna um stöðu barna hér á landi. Slík gagnasöfnun sé forsenda þess að hægt verði að vinna að auknu jafnræði meðal barna á Íslandi

Í þingsályktuninni er lagt til að starfshópnum verði falið að skila skýrslu til ríkisstjórnarinnar innan sex mánaða frá skipun starfshópsins og skýrslan kynnt í síðasta lagi fyrir lok yfirstandandi þings.  

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV