Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja kanna aðstæður til millilandaflugs á Hornafirði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingsályktunartillaga um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll verður lögð fram í dag samkvæmt dagskrá Alþingis. Samkvæmt tillögunni er samgönguráðherra falið að skoða hvort nægjanlegur búnaður og aðstaða sé á Hornafjarðarflugvelli til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með minni farþegaflugvélum.

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks er fyrsti flutningsmaður, tillögunnar. Aðrir flutningsmenn eru úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Samfylkingunni og Miðflokki.

Í þingsályktuninni segir að flugvöllurinn gegni mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins og að mikilvægt sé að skoða áframhaldandi rekstur og uppbyggingu á svæðinu til hagsbóta fyrir heimamenn og atvinnulífið.

„Ljóst er að staðsetning vallarins býður upp á mikla möguleika til aukinnar umferðar ferðamanna, sérstaklega í kjölfar tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs. Til að svo megi verða er nauðsynlegt að skoða hvort til staðar sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi,“ segir í tillögunni, sem er á dagskrá á þingfundi sem hófst klukkan 10:30.

Vísað er til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015 til 2018 þar sem fram hafi komið í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar að vert væri að skoða að veita minni vélum í millilandaflugi heimild til að lenda, meðal annars á Hornafirði. Það gæti hjálpað til við dreifingu ferðamanna og minnkað álag á Keflavíkurflugvelli og aukið öryggi í flugi yfir landið.

Málið var áður lagt fram á þingi í september 2018. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir