Eigendur Ögurs, sem er næsti bær við Garðstaði, sendu kvörtun til Heilbrigðisnefndar Vestfjarða þegar Súðarvíkurhreppur ákvað að búa til iðnaðarsvæði á Garðstöðum í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þeir segjast vera að fylgja eftir 22 ára sögu kvartana vegna fjölda bílhræja við bæinn. Hafliði Halldórsson er einn eigenda Ögurs.
„Við erum óhress með það að hvorugur þessara aðila hefur beitt sér að neinu viti í því að minnka bæði umfang og ásýnd þeirrar starfsemi sem fer fram á Garðstöðum,“ segir Hafliði.
455 bílhræ fyrir fimm árum
Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða taldi bílhræ á Garðstöðum um nokkurra ára skeið. Það taldi þar 455 bílhræ 2014 en hefur ekki haft afskipti af starfseminni síðan þá. Það telur ekki að bráð mengunarhætta stafi af hræjunum þar sem rafgeymar hafa verið fjarlægðir og olíu tappað af.
Súðarvíkurhreppur fékk tvær milljónir af fjárlögum 2006 til að hreinsa til á Garðstöðum, en það gekk ekki eftir. Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðarvíkurhrepps, segir að einhvers konar drög að samkomulagi lágu þá fyrir með áætlun um að fækka bílum..
„Það virðist ekki hafa gengið eftir,“ segir Bragi.