Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja hundruð bílhræja á Garðstöðum burt

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Mörg hundruð bílhræjum hefur verið safnað saman við Garðstaði í Ísafjarðardjúpi í yfir tuttugu ár. Súðarvíkurhreppur ætlar að breyta jörðinni í iðnaðarsvæði til að hægt sé að veita starfsleyfi fyrir bílapartasölu í óþökk eigenda á næsta bæ.

Eigendur Ögurs, sem er næsti bær við Garðstaði, sendu kvörtun til Heilbrigðisnefndar Vestfjarða þegar Súðarvíkurhreppur ákvað að búa til iðnaðarsvæði á Garðstöðum í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þeir segjast vera að fylgja eftir 22 ára sögu kvartana vegna fjölda bílhræja við bæinn. Hafliði Halldórsson er einn eigenda Ögurs.

„Við erum óhress með það að hvorugur þessara aðila hefur beitt sér að neinu viti í því að minnka bæði umfang og ásýnd þeirrar starfsemi sem fer fram á Garðstöðum,“ segir Hafliði.

455 bílhræ fyrir fimm árum

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða taldi bílhræ á Garðstöðum um nokkurra ára skeið. Það taldi þar 455 bílhræ 2014 en hefur ekki haft afskipti af starfseminni síðan þá. Það telur ekki að bráð mengunarhætta stafi af hræjunum þar sem rafgeymar hafa verið fjarlægðir og olíu tappað af.

Súðarvíkurhreppur fékk tvær milljónir af fjárlögum 2006 til að hreinsa til á Garðstöðum, en það gekk ekki eftir. Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðarvíkurhrepps, segir að einhvers konar drög að samkomulagi lágu þá fyrir með áætlun um að fækka bílum..

„Það virðist ekki hafa gengið eftir,“ segir Bragi.

Bílhræ við Garðstaði í Ísafjarðardjúpi
Bílhræ voru talin á fimmta hundrað á Garðstöðum 2014

Með starfsleyfi yrði eftirlit með starfseminni

Umráðamaður Garðstaða vildi ekki veita viðtal en bendir á að ef starfsleyfi fengist fyrir bílapartasölu yrði hún þar með að fylgja reglum og eftirlit haft með starfseminni.

Eigendur Ögurs segja Súðarvíkurhrepp vera að gera tilraun til þess að svo hendur sínar af málinu með þessum áformum. Bragi Þór segir að það megi kalla hlutina ýmsum nöfnum.

„Ég held þetta hafi aðallega verið skref í þá átt að ná einhverjum böndum á þá starfsemi sem er þarna í gangi,“ segir Bragi.

Súðavíkurhreppur sat hjá við samþykkt sveitarfélaga á Vestfjörðum um umgengni og þrifnað utanhúss 2016. Þar segir að skylt sé að halda eignum vel við og halda lóðum snyrtilegum. Lítið hefur breyst á Garðstöðum síðan þá.

Ef það ætti að hreinsa landareignina í dag myndi það að öllum líkindum kosta 40 til 50 milljónir.

Segir eignirnar falla í verði ef áform ganga eftir

Í Ögri er í dag höfð sumardvöl og rekin ferðaþjónusta. Hafliði segir að hann og aðrir eigendur og rekstraraðilar hljóti skaða af gangi skipulagsbreytingar og leyfisveiting eftir.

„Það er augljóst að bæði nota- og verðgildi okkar eigna á staðnum rýrnar verulega við þá aðgerð sem nú er boðuð,“ segir Hafliði.

Hafliði Halldórsson, einn eigenda Ögurs í Ísafjarðardjúpi
Hafliði Halldórsson er einn eigenda Ögurs