Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja geta greitt sanngirnisbætur án langra rannsókna

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Forsætisráðherra vill breyta lögum um sanngirnisbætur svo fólk sem vistað var á stofnunum fyrir fötluð börn geti fengið greiddar bætur án tímafrekrar rannsóknar á hverri og einni stofnun. Fyrri rannsóknir vistheimilanefndar þykja hafa leitt nægilega í ljós tíðaranda, viðhorf, uppbyggingu og starfsemi stofnana og hvað fór úrskeiðis til að ekki þurfi sérstaka rannsókn fyrir hverja þá stofnun og heimili sem ekki hefur verið rannsakað.

Lög um vistheimilanefnd og sanngirnisbætur voru sett fyrir rúmum áratug eftir að fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um illa meðferð barna sem vistuð voru á stofnunum á vegum hins opinbera. Mörg málanna voru þá áratuga gömul. Vistheimilanefnd rannsakaði aðbúnað og aðstæður barna á fjölda vistheimila og síðar á stofnunum á borð við Heyrnleysingjaskólann og Kópavogshæli. Þessar rannsóknir voru forsenda fyrir því að fyrrverandi vistbörn fengju greiddar sanngirnisbætur. Síðasta skýrsla Vistheimilanefndar var birt árið 2016.

Nú vill forsætisráðherra breyta lögum um sanngirnisbætur svo hægt sé að greiða fólki bætur sem vistuð voru á stofnunum fyrir fötluð börn, án tímafrekrar rannsóknar. Það er rökstutt með vísan til niðurstaðna fyrri rannsókna. Þótt svo engar stofnanir séu nefndar í umfjöllun um málið á samráðsgáttinni má gera ráð fyrir að þeirra á meðal séu Sólheimar, Skálatún og Sólborg. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, fagnar þessu. „Við höfum beðið eftir þessu lengi og teljum mjög mikilvægt að þessu máli ljúki þar sem við teljum að það verði að gæta jafnræðis gagnvart öllum börnum sem voru vistuð utan heimilis, hvort sem þau voru fötluð eða ekki.“ Bryndís segir að stjórnvöld verði að hafa frumkvæði að því að hafa uppi á þeim fötluðu einstaklingum sem vistaðir voru sem börn á þessum stofnunum. „Vegna þess að fötlun þeirra er þess eðlis að oftast hafa þau ekki sjálf frumkvæði, eru jafnvel það mikið fötluð, þannig að það verður að gæta þess að enginn sé skilinn eftir.“