Vilja gera trjágarða þar sem aska látinna er grafin

19.11.2019 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Tré lífsins vill búa til bálstofur og grafreiti, eða minningargarða, þar sem aska látins fólks er sett í lífrænt duftker. Það er svo gróðursett ásamt tré sem vex til minningar um hinn látna. Þegar hefur verkefnið haft samband við öll sveitarfélög á landinu til að athuga viðmót þeirra við hugmyndinni.

Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir, frá Tré lífsins, segir þónokkur sveitarfélög hafa brugðist við með jákvæðu móti og mörg hafi áhuga eða vilja fylgjast með því hvernig fram vindur. Enn er beðið eftir svörum frá stærstu sveitarfélögunum.

„Þetta er fyrsta skrefið í átt að leyfisveitingu. Sjá hvernig skipulagsvaldið bregst við þessu og hvort þau hafi yfir höfuð áhuga,“ segir hún. Með henni í Tré lífsins starfa Oktavía Hrund Jónsdóttir og Olga Margrét Kristínardóttir Cilia.

Sveitarfélög þyrftu að breyta skipulagi

Samkvæmt lögum um greftrun líka og líkbrennslu er skylt að brenna í viðurkenndri bálstofu sem sýslumaður þarf að löggilda. Tré lífsins þyrfti einnig leyfi frá dómsmálaráðuneyti. Þá þyrftu sveitarfélög að ganga í gegnum breytingar á aðal- og deiliskipulagi þar sem gert er ráð fyrir görðunum. Jafnframt stendur í lögum að skylt sé að greftra í viðurkenndum grafreitum. Ekki eru duftgarðar utan kirkjugarða sérstaklega nefndir. Þó kemur fram að bálstofur megi koma upp duftreit utan kirkjugarða.

Rafrænn gagnabanki aðgengilegur í gegnum QR-kóða

Sigríður segir hugmyndina hafa vaknað út frá umhverfissjónarmiðum, auðlindanýtingu og betri landnýtingu við andlát. Undir hana fellur einnig rafrænn gagnabanki. Það sem einstaklingar geta skráð sínar óskir og minningar. QR-kóði verður á hverju tré sem aðstandendur geta skannað og opnað þannig minningarsíður viðkomandi á vefnum.

Heyra ekki undir trúfélag

Lítið er um grafreiti á Íslandi sem heyra ekki undir Þjóðkirkjuna. Sigríður segir Tré lífsins ekki leita eftir því að vera kennt við trúfélag. Áhersla er lögð á samstarf við trúfélögin og að allir séu velkomnir óháð trú.

„Allir geta verið með sína kveðjuathöfn, annað hvort óháða í okkar rými eða fá fulltrúa frá sínum vettvangi. Við verðum ekki trúfélag og viljum ekki tengjast einu trúfélagið umfram annað,“ segir Sigríður.

Frummynd duftkerja Tré lífsins, hannað af Helgu Unnarsdóttur
elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi