Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja gera tilraunaskot frá Íslandi

Mynd: Skyrora / Skyrora
Evrópskt sprotafyrirtæki sem vinnur að smíði eldflauga vill skjóta á loft tilraunaeldflaugum á Íslandi. Talsmaður fyrirtækisins segir aðstæður á Íslandi kjörnar til eldflaugaskota.

Evrópska sprotafyrirtækið Skyrora, sem er með höfuðstöðvar í Edinborg í Skotlandi, lýsir sér sem Uber geimiðnaðarins en það þróar og smíðar eldflaugar sem ætlað er að ferja gervihnetti út í geim. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa verið staddir hér á landi því þeir sjá fyrir sér að nota Ísland sem vettvang fyrir tilraunaskot. Horfa þeir sérstaklega á norðausturhorn landsins.

Einstök landfræðileg lega

„Þetta er einstök landfræðileg lega, einkum við norðurströndina. Þar er strjálbýlt og einstakt aðgengi bæði að keilu- og pólbrautum fyrir gervitungl. Og nú þegar hefur mikið verið gert að geimferðarmálum á Íslandi. Til dæmis þjálfun áhafna Appollo geimfaranna á sjöunda áratugnum,“ segir Owain Hughes, viðskiptastjóri Skyrora.

Ná 100 kílómetra hæð

Eldflaugaskot eru ýmsum leyfum háð og hafa forsvarsmenn Skyrora átt fundi með þar til bærum yfirvöldum, svo sem Landhelgisgæslunni, flugmálayfirvöldum og sveitarfélögum á Norðausturlandi. Owain vonast til að geta skotið á loft þremur eldflaugum hér á landi í ár.

„Á næstu tólf mánuðum ætlum við að skjóta á loft eldflaugum frá tveggja metra lengd upp í ellefu metra löngum, sem ná upp í 45 til 100 kílómetra hæð.“

Og hvar enda þær svo? „Þær falla aftur til jarðar og við hyggjumst því skjóta þeim í hafið en við vinnum með hlutaðeigandi yfirvöldum, meðal annars Landhelgisgæslunni til að tryggja að sæfarendum stafi ekki nein hætta af þeim. Það verður ekkert varanlegt tjón og allt verður sótt í land svo fljótt sem auðið er eftir skotið.“

Owain vonast til að verkefnið kveiki áhuga Íslendinga á geimiðnaðinum og sér hann fyrir sér að framhaldsskóla- og háskólanemar komi að verkefninu.

Magnús Geir Eyjólfsson