Vilja fyrst og fremst breyta ferðavenjum

31.08.2019 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Vel kemur til greina að breyta akreinum í forgangsakreinar fyrir strætó á háannatímum segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. Slíkar breytingar gætu orðið strax á næsta ári. 

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa eflaust flestir tekið eftir miklum umferðarþunga á morgnanna og síðdegis eftir að sumarfríum lauk og skólarnir byrjuðu á ný. Fólk er allt að klukkustund að aka leið sem yfir sumartímann tekur aðeins nokkrar mínútur. Framkvæmdastjóri Strætó vakti athygli á þeim möguleika að skoða það að hleypa strætó á öfugar akreinar á háannatímum.

Sigurborg segir að mikilvægast sé að breyta ferðavenjum borgarbúa til að leysa umferðarhnútinn. „og þá erum við að skoða borgarlínu, þá erum við að skoða hjól þá erum við að skoða allan pakkann. Þangað til að borgarlínan kemst í gagnið og á meðan að við erum að vinna með leiðakerfi Strætó þá er langskilvirkasta leiðin er að breyta akreinum sem eru bara fyrir bíla í dag fyrir forgangsakreinar fyrir Strætó.“

Ef af þessu yrði myndi því aðeins ein akrein vera fyrir einkabíla á morgnanna á leiðinni úr Mosfellsbæ til Reykjavíkur og ein akrein seinnipartinn úr Reykjavík til Mosfellsbæjar.

Sigurborg segir það á ábyrgð stjórnvalda að gera fólki kleift að nota almenningssamgöngur. „Sumir upplifa það að það sé ekki raunhæfur valkostur fyrir þá í dag þá þurfum við að bæta okkur og gera betur og það er breytinga að vænta frá Strætó núna í september varðandi nýtt leiðakerfi sem er mjög spennandi og svo borgarlínan en við þurfum líka að bæta tíðni og þjónustu á annan hátt.“

Hún segir nauðsynlegt að grípa til aðgerða fyrr en seinna. „Ég held að við sem samfélag þurfum að þora að taka þessar ákvarðanir, við glímum við mikinn umferðarvanda á höfuðborgarsvæðinu og við glímum við loftslagsvanda og hann er bara leystur með einum hætti og það er að minnka bílaumferð. Við höfum það í raun og veru í hendi okkar og getum gert það strax á næsta ári.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi