Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Vilja flytja inn lyf og ferskt kjöt

01.07.2014 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Smásölukeðjan Costco hefur hug á því að opna risaverslun og bensínstöð á Íslandi og leitar nú eftir því við ráðuneyti að fá undanþágur fyrir starfsemina. Costco vill flytja inn og selja ferskt bandarískt kjöt auk lyfja og áfengis.

Tveir staðir koma helst til greina. Annars vegar í Kauptúni í Garðabæ eins og Morgunblaðið greindi frá fyrr í mánuðinum, og svo Korputorgi eins og Bylgjan sagði frá í dag.

„Mér hugnast bara fyrst og fremst vel að fá verslunina til Íslands þar sem við gætum þá séð fram á lækkað allt of hátt vöruverð og auðvitað er það bara plús ef hún kemur til Garðabæjar,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ.

Í Garðabæ bíða menn eftir teikningum að svokallaðri fjölorkustöð, þar sem Costco vill selja bensín, rafmagn og jafnvel metan. Skipulagsráð Reykjavíkur bíður eftir sömu upplýsingum hvað varðar Korputorg. Skipulagsráðið hefur þegar samþykkt að Costco fái að starfrækja verslun á Korputorgi. „Við teljum að það sé kappnóg af bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu þannig að við höfum tekið okkur smá tíma í það að fá betri upplýsingar um það hvað þeir kalla fjölorkustöð,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður skiuplagsráðs.

Vilja undanþágur og lagabreytingar
Vöruverð í Costco er almennt lægra en í öðrum búðum. Þeir selja meira magn í einu og gegn því að kaupendur séu í viðskiptamannaklúbbi. Hugmyndin að baki Costco er að geta boðið upp á allt frá bíldekkjum yfir í golfsettið, alla matvöru og lyf og áfengi, en til að það sé hægt undir einu þaki á Íslandi þá þarf að breyta ansi mörgum lögum og reglum.

Og einmitt vegna þess hafa fulltrúar Costco sent inn fjölmörg erindi í ýmis ráðuneyti og fundað í dag með fólki úr stjórnsýslunni. Og það eru ýmis ljón í veginum eins og að breyta áfengislöggjöfinni. Samkvæmt heimildum fréttastofu vilja fulltrúar Costco einnig fá undanþágu frá banni við innflutningi á fersku kjöti auk krafna um merkingar á matvælum. Á móti hafa þeir sýnt áhuga á því að selja íslenskan fisk í verslunum sínum erlendis sem eru fleiri en 600.

Fagnar aukinni samkeppni
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar og nýsköpunarráðherra, hefur hitt fulltrúa Costco oftar en einu sinni en sagðist lítið geta tjáð sig um viðræðurnar enda væru þær á borði margra ráðuneyta. „Ég sé fyrir mér að við getum látið þetta ganga já, það eru augljóslega atriði sem þarf að greiða úr en á meðan þeir sýna þessu eins mikinn áhuga og mér finnst þeir gera þá erum við á þessum enda tilbúin til að gera það sem í okkar valdi stendur til að greiða úr þeim úrlausnarefnum sem fyrir hendi eru.“

Ráðherra fagnar aukinni samkeppni. „Þetta myndi væntanlega lækka vöruverð, eða það er allavega von mín að svo yrði og ekki síst að auka fjölbreytni í vöruúrvali.“