Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja fljúga til Evrópu tvisvar til þrisvar í viku

10.02.2020 - 13:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Hópur fjárfesta skoðar nú möguleikann á því að stofna nýtt flugfélag til þess að koma á reglubundnu áætlunarflugi milli Akureyrar og Evrópu. N-Ice Air er heiti verkefnisins en helstu bakhjarlar eru Samherji, Höldur og Norlandair.

„Erum bjartsýn”

Verkefnið er á byrjunarstigi en það hlaut fyrir helgi 3,5 milljónir króna í styrk úr uppbyggingarsjóði sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson titlar sig vinnumann verkefnisins. 

„Við erum bjartsýn á það að niðustaða okkar fýsileikakönnunar muni leiða í ljós að verkefnið verði tekið áfram og hér sé grundvöllur fyrir flug nokkrum sinnum í viku til helstu áfangastaða í Evrópu,” segir Þorvaldur. 

Íbúar þreyttir á ferðalögum til Keflavíkur

Þorvaldur er bjartsýnn á að markaður sé fyrir flugfélag sem þetta. Hann segir að íbúar á svæðinu séu orðnir þreyttir á þeim kostnaði sem fylgi því að fljúga til útlanda um Keflavíkurflugvöll. 

„Okkur þykir nýleg reynsla frá Transavia í Hollandi og Titan Airwaves frá Bretlandi gefa góð fyrirheit um að markaðurinn taki lausnum sem þetta mjög fagnandi. Það má horfa til þess að heimamarkaðurinn okkar sé í kringum 50 þúsund manns og það má ekki horfa fram hjá því að þetta eru 50 þúsund manns sem ella þurfa að keyra 6-9 klukkustundir í Keflavíkurflug til þess að fara úr landi.”

Jafn stórt svæði og Færeyjar

Þorvaldur líkir svæðinu við Færeyjar en þaðan eru tíðar flugferðir til Evrópu á degi hverjum. 

„Á upptökusvæðinu búa svipað margir og í Færeyjum, hvaðan þeir fljúga þrisvar til tíu sinnum á dag. Ég hugsa að það sé þá ekkert allt of mikil bjartsýni að halda að það verði hægt að fljúga héðan, beint til Evrópu tvisvar til þrisvar í viku fyrst um sinn.”

Hefur ekki áhyggjur af fjármögnun

Helstu bakhjarlar verkefnisins eru Samherji, Höldur og Norlandair. Þorvaldur hefur ekki áhyggjur af fjármögnun félagsins. 

„Ég er reyndar bara fullviss um það að næsta skref ef það verður reyndin þá höfum við fjármuni tiltæka í það. Við förum okkur samt engu óðslega og drögum andann rólega í þessu.”