Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja fjölbreyttari námsleiðir á Suðurnesjum

22.09.2019 - 08:28
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Níu þingmenn úr Suðurkjördæmi vilja að menntamálaráðherra skipi starfshóp um stefnumótun náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum. Kanna þurfi hvernig hægt væri að taka við fleiri nemendum og staðsetningu fyrir framtíðaruppbyggingu Fjölbrautarskólans á Suðurnesjum, sem þurfi að fá pláss til að geta stækkað frekar.

Íbúum hefur fjölgað hlutfallslega meira á Suðurnesjum á undanförnum árum en í öðrum landshlutum og langt umfram meðalfólksfjölgun í landinu, segir í greinargerð þingsályktunartillögu þingmannanna. Þeir vilja að menntamálaráðherra skipi starfshóp sem verði falið að kanna hvernig hægt væri að bæta við námsplássum á svæðinu með hliðsjón af fólksfjölguninni og að fjórðungur íbúa er af erlendum uppruna. Fjölbreyttar námsleiðir þurfi að vera í boði í ljósi þess hve margir starfi í vaktavinnu á Suðurnesjum. 

Mæta megi kröfum og þörfum atvinnulífsins með fjölbreyttu námsframboði og sveigjanlegu námsumhverfi í nánu samstarfi við atvinnulífið. Aukin sjálfvirknivæðing eigi eftir að auka kröfur um fjölbreytta menntun á framhaldsskólastigi og meiri þörf fyrir fjölbreyttar námsleiðir. 

Þá segir í greinargerðinni að vandséð sé hvernig Fjölbrautarskóli Suðurnesja geti stækkað frekar á núverandi stað. Rétt sé að líta til framtíðarskipulags sveitarfélag á Suðurnesjum í mati á nýrri staðsetningu miðsvæðis, bæði með tilliti til almenningssamgangna og stækkunarmöguleika til næstu áratuga. Þá þurfi að tryggja að fjárheimildir skólans séu í samræmi við íbúafjölda. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV