Vilja fækka sveitarfélögum og stækka þau

01.08.2019 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd: Kortasjá
Þingsályktunartillaga um stefnumarkandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga verður lögð fram á þingi í haust. Þetta segir Þórmundur Jónatansson, upplýsingafulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Meðal annars er kveðið á um fækkun sveitarfélaga í tillögunni. Valgarður Hilmarsson, formaður starfshóps sem unnið hefur að tillögunni, segir að tilgangurinn sé að efla sveitarstjórnarstigið.

Valgarður segir að hvetja eigi sveitarfélögin til þess að sameinast. Einn liður í hvatningunni sé að sýna fram á að með stækkun sveitarfélaga verði samfélagið öflugra og geti betur sinnt verkefnum í þágu íbúanna. Þá verði væntanlega einnig fjárhagsleg hvatning fyrir sveitarfélögin. 

Fá aðlögunartíma til þess að sameinast sjálf

Valgarður segir að sveitarfélögin fái aðlögunartíma til þess að sameinast af sjálfsdáðum. Eftir það verði þeim gert að sameinast. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins eru innan við fimm hundruð íbúar í þriðjungi sveitarfélaga.

Valgarður segir að miðað verði við að ekki verði færri en þúsund íbúar í hverju sveitarfélagi, eftir sameiningu. Hann segir að ekki séu mikil vísindi að baki ákvörðunarinnar um þessa viðmiðunartölu. Hún sé í raun aðferð við að nálgast efnið. 

Sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga varinn í Stjórnarskrá

Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps, að með skyldubundinni sameiningu sveitarfélaga sé höggvið nærri sjálfsákvörðunarrétti þeirra, sem varinn er í Stjórnarskrá Íslands.

„Við leggjum mikið upp úr að verja sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna, en í þessu felst í rauninni að setja reglur um hvernig sveitarfélögin taka sínar ákvarðanir. Það er ekki verið að skikka þau í sjálfu sér. Þau hafa tækifæri til þess að skipuleggja sig sjálf, fullkomlega. Þannig það er ekki verið að mínu mati að skerða það,“ segir Valgarður. 

Verkefnin geti verið erfið fyrir minni sveitarfélög

Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri og ein þeirra sem sitja í starfshópnum, segir að það þurfi öfluga einingu til þess að standa undir starfsemi og verkefnum sveitarfélaganna. Það geti verið erfitt fyrir lítið sveitarfélag að standa undir öflugri og faglegri stjórnsýslu. 

Hún segir að oft séu verkefni sveitarfélaga samstarfsverkefni og leyst til dæmis með samningi við annað sveitarfélag. Það geti reynt á lýðræði þar sem verkefnin séu þá færð frá sveitarstjórninni og fjarlægðin frá íbúum og kjörnum fulltrúum verði þá meiri.

Tillögurnar verða lagðar fyrir aukaþing Sambandsins

Valgarður segir að margt sé lagt til í tillögunum annað en fækkun sveitarfélaga. Starfshópnum hafi verið falið að gera áætlun um starfsemi sveitarfélaga til næstu fimmtán ára. Þar sé meðal annars að finna nálgun að íbúalýðræði og tillögur að því hvernig hægt sé að efla starfsemi sveitarfélaga. Margt snúi að öðru en íbúamörkum sveitarfélaga.

Hann segir að tillögurnar verði kynntar síðar í mánuðinum og lagðar fyrir aukaþing Sambands íslenskra sveitarfélaga 6. september. Þá ætti ýmislegt að liggja fyrir, svo sem hversu langan aðlögunartíma sveitarfélögin fá til sameiningarinnar. 

Fréttin hefur verið uppfærð kl. 18.04.

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi