Vilja fækka í bandaríska herliðinu í Afganistan

15.12.2019 - 17:27
President Donald Trump, left, listens as Afghan President Ashraf Ghani, right, addresses members of the military during Trump's surprise Thanksgiving Day visit, Thursday, Nov. 28, 2019, at Bagram Air Field, Afghanistan. (AP Photo/Alex Brandon)
Forsetarnir tveir, Donald Trump og Ashraf Ghani, á Bagram-herflugvellinum í útjaðri Kabúl. þar sem Trump gerði óvæntan og stuttan stans á þakkargjörðardeginum ameríska. Mynd: AP
Bandarísk stjórnvöld hyggjast tilkynna snemma í þessari viku um að fjögur þúsund hermenn verði kallaðir heim frá Afganistan. AFP greinir frá. Um það bil þrettán þúsund bandarískir hermenn eru núna í Afganistan.

Viðræður við talíbana í Afganistan héldu áfram í liðinni viku um leiðir til að draga úr átökum og jafnvel reyna að ná vopnahléi. 

Washington Post greindi í liðinni viku frá leyniskýrslu sem Bandaríkjastjórn lét taka saman um stríðið í Afganistan. Samkvæmt henni hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum komið sér hjá því að segja almenningi sannleikann um stríðið í Afganistan allt frá því að það hófst fyrir átján árum. Það er í stjórnartíð þriggja síðustu forseta, Donalds Trumps, Baracks Obama og George W. Bush. Þess í stað hafi þau birt uppörvandi yfirlýsingar sem þau viti að séu rangar og ekki greint frá því að stríðið væri í raun óvinnanlegt.

Vill draga úr hernaði Bandaríkjanna erlendis

Donald Trump forseti Bandaríkjanna greindi frá því í liðnum mánuði að hann hygðist fækka í bandaríska herliðinu í Afganistan niður í 8.600 og jafnvel enn frekar. Í drögum að samkomulagi við talíbana frá því í september, sem náðist saman um eftir langar viðræður, þyrftu talibanar að samþykkja ákveðnar öryggisráðstafanir, samþykkja viðræður við afgönsk stjórnvöld og heita því að draga úr átökum og í staðinn færi bandaríska herliðið burt úr landinu. 

Trump lagði í nóvember áherslu á mikilvægi vonahlés og heimsótti Bagram herstöðina í Afganistan óvænt og hélt upp á þakkargjörðardaginn með hermönnum þar og hitti Ashraf Ghani, forseta Afganistan. Trump hefur áður gefið til kynna að hann vilji draga úr hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna erlendis eins og kostur er. 

Í september hætti Trump við viðræður við talíbana eftir að bandarískur hermaður var drepinn í sprengjuárás í Kabúl. Sjöunda desember síðastliðinn hófust viðræður á ný í Doha, en hlé var gert á þeim eftir árás talíbana nærri Bagram. AFP hefur eftir bandaríska innanríkisráðuneytinu að Zalmay Khalilzad, erindreki Bandaríkjastjórnar, sem leiðir viðræðurnar, sé kominn aftur til Doha. Ekki sé þó ljóst hvenær viðræðum við talibana verður framhaldið. 

Frá árinu 2001 hafa yfir 775 þúsund bandarískir hermenn verið sendir til Afganistans. 2.300 eru fallnir og 20.589 hafa særst, samkvæmt gögnum varnarmálaráðuneytisins. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi