Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja endurvekja starfsemi Atlantic Leather

22.11.2019 - 11:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Viðræður um að endurvekja starfsemi fyrirtækisins Atlantic Leather á Sauðárkróki eru langt komnar. Gangi áætlanir eftir tekst að bjarga helmingi þeirra starfa sem töpuðust þegar fyrirtækið fór í þrot.

Atlantic Leather var tekið til gjaldþrotaskipta um miðjan síðasta mánuð. Þar var meðal annars rekin Gestastofa sútarans sem framleiddi leður úr fiskroði en 15 manns störfuðu hjá fyrirtækinu. Stefán Ólafsson skiptastjóri segir málið á viðkvæmu stigi.

Viðræður langt komnar

„Það eru í gangi viðræður við nokkra aðila, sérstaklega einn og þær viðræður eru komnar nokkuð langt myndi ég segja. Þessi aðili ætlar sér að hefja þarna starfsemi að nýju með svona aðeins breyttum áherslum. Það eru ákveðnir fyrirvara að beggja hálfu ennþá í gildi en mér sýnist þetta vera komið nokkuð langt sko."

Stefán vill ekki gefa upp hver stendur á bak við hugsanleg kaup.

„Þetta er hérna aðili sem er að leggja mikið í þetta og gera þetta vel, skoða alla hluti. Þess vegna er þetta ekki alveg orðið opinbert ennþá, það er svona ekki alveg búið að hnýta alla lausa enda."