Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja endurskoða leið mála til siðanefndar

18.05.2019 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn Vinsti grænna, Samfylkingarinnar og Pírata telja að endurskoða þurfi hvernig vísa eigi málum til siðanefndar Alþingis. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, segir að endurskoða þurfi aðkomu forsætisnefndar þegar grunur vaknar um brot á siðareglum þingmanna. 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, var í gær fyrsti þingmaðurinn sem hefur brotið gegn siðareglum með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson í Silfrinu í febrúar. Hún sagði að það væri rökstuddur grunur að Ásmundur hafi dregið að sér fé, vegna endurgreiðslna sem hann fékk frá Alþingi eftir skráningar í akstursdagbók hans. Hann fékk 4,6 milljónir árið 2017 endurgreiddar vegna 47.644 kílómetra aksturs umrætt ár.  

Kolbeinn segir vanta betri ramma í kringum þessa úrskurðarnefnd. „Hugsunin með þetta kerfi, draumurinn var sá, að þarna yrði komið á kerfi siðareglna og svo ef einhver hefur grun um að einhver hafi farið í bága við þær þá sé hægt að vísa því til siðanefndar og svo komi úrskurður þaðan. Síðan hafa menn skoðun á þessum úrskurði en að þetta sé eitthvað kerfi sem haldi.“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, greip þá orðið og tók undir með Kolbeini. „Best væri náttúrlega ef að málin færu beint til siðanefndar og að forsætisnefnd væri ekki einhver milliliður.“ 

Kolbeinn tók undir það. „Það var einmitt það sem ég var að fara að segja, ég sleppti vísvitandi milliliðnum sem ég ætlaði að koma inn á sem er forsætisnefnd. Ég held að við þurfum að taka það til skoðunar hvernig það er og ég þykist reyndar vita það að það sé hugsun fólks að gera það þegar þetta sem hefur verið talað um er frá.“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar tók undir með þeim í Vikulokunum á Rás1 í morgun.