Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja ekki funda með Sigmundi Davíð

06.12.2018 - 19:36
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Forystumenn stjórnarandstöðuflokka á Alþingi vilja ekki lengur sitja fundi með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni vegna Klausturmálsins og hafa hætt að bjóða honum á reglulega samráðsfundi.

 

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokks, gaf í skyn í viðtali á Bylgjunni í gær að ummælin á Klausturbarnum væru hluti af kúltúr sem starfsmenn Alþingis tækju þátt í. Starfsmenn hafa tekið þessu afar illa. Í dag sendi Helgi Bernódusson skrifstofustjóri Alþingis frá sér yfirlýsingu þar sem hann mótmælir því að starfsmenn þingsins séu á einn eða annan hátt dregnir inn í umræðuna. Þá segist hann líka harma þessi ummæli því þau eigi ekki við rök að styðjast. Eftir því sem fréttastofa kemst næst er það nánast einsdæmi að skrifstofustjóri Alþingis sendi frá sér yfirlýsingu af þessu tagi.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sagðist í Kastljósviðtali í gær hafa upplifað samtal Klausturmanna sem árás og kallaði þá ofbeldismenn. Sigmundur Davíð brást við þessu á Facebook í dag þar sem hann sagðist skilja reiði hennar. Hann sagðist enn fremur skammast sín fyrir að hafa ekki atyrt þá menn sem notuðu ljót orð í æsingi. Hann segist aldrei hafa verið kallaður ofbeldismaður og ekkert á hans pólitíska ferli hafi sært hann eins mikið.

Logi Einarsson formaður Samfylkingar segir mikið vantraust ríkja í garð Sigmundar Davíðs og menn séu nú hættir að bjóða honum á reglulega samráðsfundi stjórnarandstöðuflokka.

„Ég hef ekki sem formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins treyst mér til þess að senda fundarboð á formann Miðflokksins,“ segir Logi. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV