Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja bjóða ferðamönnum hreinorkubíla

Mynd: RÚV / RÚV
Eggert Benedikt Guðmundsson forstöðumaður Grænvangs segir að ef tækist að raforkuvæða alla bílaleigubíla myndi það flýta innleiðingu hreinorkubíla hér á landi og hafa jákvæð áhrif á ímynd Íslands. Rafvæðing allra bílaleigubíla á Íslandi er nú til skoðunar hjá aðilum í atvinnulífinu.     

Rafvæðing als bílaleigubílaflotans til umræðu

Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífsins, stjórnvalda og fræðasamfélagsins sem hefur það hlutverk að vinna að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda hér og kynna og markaðssetja erlendis grænar lausnir Íslendinga. Þar velta menn fyrir sér hvað atvinnulífið getur lagt af mörkum til að draga úr losun hér á landi. Rafvæðing allra bílaleigubíla er ein af þeim hugmyndum sem hafa verið til umræðu.

„Ef maður fer bara í þessar tölur og sér í hverju losun felst þá er náttúrlega losun frá vegasamgöngum sem gargar á mann og segir hér er virkilega hægt að taka til hendinni. Annars vegar af því hér er eftir miklu að slægjast og hins vegar af því hér eru lausnir til. Við vitum hvernig hægt er að koma á orkuskiptum í vegasamgöngum.“
 
Stór hluti bílaflotans hér á landi eru bílaleigubílar sem losa mikið af gróðurhúsalofttegundum. Því var horft til þess hvernig hægt væri að flýta orkuskiptum í flotanum.  Eggert segir að margt þurfi að gerast til að það gangi upp. 

Ferðamenn geta lent í vandræðum 

„En bílaleigur bera því við sumar að það sé erfitt að fá umhverfisvæna bíla þeir séu bara ekki í boði þannig að það þýði ekki að byrja á þessu. Sumar hafa lagt af stað og komið sér upp hreinorkubílum en eftirspurn hefur verið lítil því ferðamenn sem koma hingað til lands segja, þetta er eitthvað sem okkur finnst of áhættusamt. Og jafnvel þeir sem leigja bíla lenda í vandræðum vegna þess að það er kannski ekki hleðslustöð á hótelinu þeirra o.s.frv. Þannig að þetta er dæmi um marga hluti sem þurfa að gerast og þess vegna höfum við verið að stinga upp á annarri nálgun sem myndi snúa að því að allur hópurinn og allt kerfið myndi setja sér það markmið að eitthvað tiltekið ár, segjum 2024 eða 2025 skiptir ekki nákvæmlega öllu máli hvaða, eitthvað tiltekið ár þá væri Ísland orðið hreinorkuland í sínum bílaflota.“

Margir kostir við rafvæðingu bílaleigubílaflotans

Ef  tækist að rafvæða bílaleigubílaflotann fylgdu margir kostir. Í fyrsta lagi dragi það úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það hefði auk þess áhrif á bílaeign almennings því næstum helmingur allra bíla á landinu eru bílaleigubílar sem margir enda svo í einkaeigu. 

„Og í þriðja lagi myndi þetta hafa mjög jákvæð áhrif á ímynd landsins sem ferðamannalands. Þetta myndi undirbyggja þá ímynd sem við erum að kynna af Íslandi sem land hreinnar orku. Í fjórða lagi mætti nefna að búast mætti við að hingað kæmu ferðamenn sem hefði aldrei dottið í hug að fá sér hreinorkubíla en svo koma þeir til síns heimalands eftir að hafa verið hér og keyrt rafmagnsbíl eða metanbíl eða vetnisbíl eða hvað sem er og sjá að þetta er ekkert mál. Þannig að þetta myndi jafnvel hafa áhrif út fyrir landsteinana líka.“

Margt verður að ganga upp samtímis

Hópur úr atvinnulífinu hefur hist til að ræða þessa hugmynd. Í honum eru meðal annars fulltrúar frá Grænvangi, Grænorku, Samtökum ferðaþjónustunnar, Bílgreinasambandinu og fleirum. Eggert segir að þegar búið sé að teikna upp þessa framtíðarsýn þurfi allir að skoða hvernig hægt sé að láta hana verða að veruleika.

Það þarf að vera framboð af bílum, bílaframleiðendur og bílainnflytjendur þurfa að vera með og til í slaginn. Bílaleigurnar þurfa að vera til í að kaupa þessa bíla. Það þurfa að vera hleðslustöðvar dreifðar út um allt land bæði hraðhleðslustöðvar á umferðaræðum og hleðslustöðvar á hótelum. [....] Ríkisstjórnin hefur sett umtalsverðar fjárhæðir í að styrkja uppbyggingu þessara stöðva. Nú það þarf að vera hleðslustæði í Keflavík við flugvöllinn. Það þarf náttúrlega að vera til nógu mikið rafmagn og það þarf að vera hægt að dreifa því um landið. Þannig að þetta er fjöldi atriða og öll atriðin þurfa að ganga upp. Að okkar viti ætti að vera hægt að tryggja að þau gætu  öll gengið upp, hvað skulum við segja, á þremur til fjórum árum.   

Gríðarlega verðmæt framtíðarsýn

Allir séu sammála um að þessi framtíðarsýn sé gríðarlega verðmæt. 
Ekki hafa ennþá verið teknar formlegar ákvarðanir um rafvæðingu alls bílaleigubílaflotans. Eggert segir að það sé mkilvægt að allir leggist á eitt.

„Þetta gerist ekki nema allar þessar forsendur sem ég nefndi séu uppfylltar. Ef eina vantar mun þetta ekki ganga.“
 
„Maður getur ímyndað sér að jafnvel þurfi einhvers konar innleiðingarferli þannig að ef menn væru að innleiða þetta þyrfti jafnvel að hafa einhverjar viðbragðsáætlanir fyrir fólk sem hugsanlega verður samt rafmagnslaust einhvers staðar því það er kannski flóknara að verða rafmagnslaus en bensínlaus.“

Mikill áhugi á rafvæðingu bílaleigubíla

Ekki er vitað hvað rafvæðing bílaleigubílaflotans á eftir að kosta en margt af því sem gera þurfi sé í bígerð hvort sem er. Til dæmis sé búið að eyrnamerkja fjármagn í hleðslustöðvar í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Dreifikerfi rafmagns um landið og raforkuöryggi hafi einnig verið til umræðu eftir óveðrið í vetur.  

„Bílaleigurnar endurnýja sína bílaflota býsna hratt, kannski hraðar en einstaklingar. Þannig að þegar þetta er komið í gang þá ættu þau umskipti að geta gerst býsna hratt. Þannig að þetta er allt saman hægt og viðráðanlegt. Þú nefndir þrjú ár. Þetta hljómar svolítið eins og það sé mjög margt sem þurfi að gerast til þetta verði að veruleika. Ertu bjartsýnn á þetta? Já ég er það. Það er bara eftir það miklu að slægjast. Og þetta er allt saman hægt en bara snýst um það að draga þetta aðeins saman og koma sér saman um tímasett markmið og skipta með sér verkum í því að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fyrir eru.“

Áhugi á hugmyndinni sé víða og margir sem tengjast ferðaþjónustunni hafi talað um að þetta gæti orðið skemmtilegt í kynningarefni fyrir Ísland sem ferðamannaland.  

„Það væri verið að kynna ekki innihaldslausa hluti heldur stæðum við undir okkar ímynd sem hreint land. Þarna væru áþreifanlegir hlutir að gerast sem hægt væri að halda á lofti. Við vitum lika að ákveðnir bílaframleiðendur og bílainnflytjendur hafa verið mjög áfram um að taka þátt í einverju svona og leggja hönd á plóginn til að búa til fyrirmyndarland sem þau gætu bent til og státað af því að taka þátt í svona stóru og áberandi verkefni.“
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV