Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja atkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann

10.08.2019 - 13:02
Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson / Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Nú stendur yfir opinn fundur með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Fundurinn hófst klukkan 11 með ávarpi Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins en þar sagði hann málflutning andstæðinga þriðja orkupakkans ótrúverðugan. Flokksmenn vilja atkvæðagreiðslu um málið innan flokksins.

Bjarni Benediktsson sagði í ræðu sinni í morgun að hann teldi málflutning Miðflokksmanna ótrúverðugan þegar kemur að þriðja orkupakkanum. Að hans mati er sæstrengur ekki raunhæfur valkostur. Hann vilji þó ekki gera lítið úr þeim flokksmönnum sem hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þeirra áhrifa sem orkupakkinn gæti haft. 

Einhver óánægja virðist vera með stefnu flokksins í þessu máli. Undirskriftalisti er í gangi gegn stefnunni. Jón Kári Jónsson, formaður félags Sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavík stendur fyrir undirskriftalistanum en hann segir að það hafi sést vel á þessum fundi að það séu mjög skiptar skoðanir innan flokksins. 

Jón Kári segir að undirskriftasöfnunin sé fyrst og fremst ákall til miðstjórnar. Flokksmenn vilji atkvæðagreiðslu innan flokksins um vilja flokksmanna. Heimildin er til staðar í skipulagsreglum flokksins en 5000 undirskriftir vantar. Jón Kári segir undirskriftasöfnunina hafa gengið vel. „Viðbrögðin eru nánast með ólíkindum,“ segir hann. 

Hlusta má á viðtal við Jón Kára í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV