Vilja afglæpavæða vörslu fíkniefna

08.10.2019 - 11:09
Mynd með færslu
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. Mynd: RÚV
Varsla neysluskammta fíkniefna verður ekki lengur refsiverð, verði frumvarp nokkurra þingmanna Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Flokks fólksins að lögum. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í gær. Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.

Verði frumvarpið að veruleika verður innflutningur, útflutningur, sala fíkniefna, skipti, afhending, framleiðsla og tilbúningur efnanna áfram bannaður. Hið sama gildir um vörslu efna í svo miklu magni að það geti ekki talist til eigin nota.

Á síðasta þingi lagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, fram frumvarp um neyslurými. Í greinargerð með frumvarpinu, sem lagt var fram í gær, segir að í velferðarnefnd hafi komið fram gagnrýni á framvarpið um neyslurými varðandi það að lögreglu yrði áfram skylt að leggja hald á ólögleg fíkniefni og gera þau upptæk, því yrði ekki hægt að ná markmiðum frumvarpsins. „Í ljósi þess að velferðarnefnd hefur þegar lýst yfir mikilvægi þess að vinna markvisst að afnámi refsinga fyrir vörslu á neysluskömmtum verður talið rétt að löggjafinn nýti sjálfur sitt stjórnarskrárbundna hlutverk og hafi frumkvæði að setningu laga til að bregðast við því ástandi sem hamlaði framgangi frumvarpsins um neyslurými,“ segir í greinargerðinni.

Samfélagið hefur sammælst um það síðustu ár að aðstoða fólk með fíknivanda og veita því heilbrigðisþjónustu, frekar en að refsa því, segir í greinargerðinni. Slík þróun hafi átt sér stað víða um heim á undanförnum árum og er Portúgal sérstaklega nefnt. Þar hafi verið samþykkt lög árið 2001 um afglæpavæðingu neyslu fíkniefna sem hafi haft það í för með sér að neytendum þar í landi hafi fækkað mikið. Fyrir lagasetninguna hafi glæpir tengdir vímuefnaneyslu, eins og rán, innbrot og þjófnaður verið algengir en hafi orðið mun sjaldgæfari með tilkomu laganna. Dauðsföllum af völdum vímuefnaneyslu hafi fækkað svo um muni. Sömu sögu sé að segja um útbreiðslu alnæmis og lifrarbólgu.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi