Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja að tollar á blóm verði felldir niður

14.10.2019 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock - RÚV
Félag atvinnurekenda hefur farið þess á leit við fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra að tollar á blómum verði felldir niður. Í bréfi félagsins til ráðherranna segir að tollar stuðli að allt of háu verði á blómum.

Erindi félagsins fylgir stuðningsyfirlýsing frá 25 blómaverslunum, innflytjendum og blómaverkstæðum. FA bendir í erindi sínu á að tollar á innflutt blóm samanstandi af 30 prósenta verðtolli annars vegar og hins vegar af stykkjatolli sem lagður er á hverja plöntu. Í bréfinu er tekið dæmi um pottaplöntu þar sem innflutningsverðið er 300 krónur. Tollurinn samtals á hana sé 290 krónur, þar ef eru 200 krónur í stykkjatoll og 90 krónur í verðtoll. Þannig hafi innflutningsverðið nær tvöfaldast. 

Tollur á túlípanabúnt yfir 1.100 krónur

Stykkjatollur á afskorin blóm er 95 krónur. FA tekur dæmi um túlípanabúnt sem kosti 600 krónur í innkaupum en lagðar séu á 1.130 krónur í toll og þannig þrefaldist innkaupaverðið. Einnig er tekið dæmi um fresíur. Innkaupsverðið á hverju blómi sé um 20 krónur en tollurinn endi í 101 krónu því séu þær ekki fluttar inn til landsins. 

Tvisvar sinnum á ári gefa stjórnvöld út heimild til að flytja inn takmarkað magn blóma á lægri tollum og er vaxandi eftirspurn eftir þeirri heimild. FA segir í erindi sínu að við síðustu úthlutun hafi umsóknir innflytjenda verið þrisvar sinnum fleiri en það magn sem í boði var. 

Neyðast til að flytja inn lúxusvöru

FA segir í erindi sínu til ráðherranna að vegna þess að stykkjatollur, eða útboðsgjald, sé lagt á hvert blóm, borgi sig ekki fyrir innflytjendur að flytja inn ódýrari vöru. Innflytjendur neyðist því til að flytja inn lúxusvöru, annars margfaldi stykkjatollurinn innkaupsverðið. Þetta stuðli annars vegar að því að verð á blómum er hátt og hins vegar að því að tilteknar vörur fáist ekki.

Segja ekki hægt að mæta eftirspurn á konudegi

FA telur að eina hugsunin að baki tollum sé að vernda innlenda framleiðslu. Tollarnir séu hins vegar einnig lagðir á þau blóm sem ekki eru framleidd hér á landi. Nelikur séu ekki ræktaðar hér á landi en beri samt 48 króna stykkjatoll.

Félag atvinnurekenda segir að það sé samdóma álit innflytjenda og smásala, sem félagið hafi leitað ráðlegginga hjá, að innlend framleiðsla anni ekki eftirspurn. Þá daga sem blómasala sé sérlega mikil, eins og mæðradag, konudag og Valentínusardag sé ekki hægt að panta það magn sem þurfi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir