Vilja að tekið verði tillit til ungs aldurs sakborninga

27.01.2020 - 21:02
Réttarhöld yfir þremur ungum mönnum sem eru ákærðir fyrir mesta kókaínsmygl í sögu Íslands
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Verjendur þremenninganna sem ákærðir eru fyrir smygl á 16,2 kílóum af kókaíni til landsins í maí, krefjast allir sýknu, en vægustu refsingar til vara. Mennirnir eru 21 til 23 ára og vilja verjendur þeirra að tekið verði tillit til þess við ákvörðun refsingar. Saksóknari telur átta ár hæfilegan dóm fyrir smyglið, en að sá sem ákærður er fyrir skipulagningu þess, og hefur neitað sök, eigi að fá þyngri dóm. Aðalmeðferð málsins lauk í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Þetta er langmesta  kókaínsmygl sem komist hefur upp hér á landi. Tveir sakborninganna fóru til Amsterdam í maí og sóttu þar sitt hvora töskuna með efnunum. Önnur innihélt 7,7 kíló af kókaíni sem var tæp 85 prósent að styrkleika. Í hinni töskunni voru 8,4 kíló og styrkleiki efnanna rúm 79 prósent. Fram kom í málflutningi saksóknara í morgun að algengt sé að styrkur neysluskammta kókaíns sé um 30 prósent. Söluverðmæti efnanna gæti því verið um 500 milljónir króna, hið minnsta. 

Saksóknari tók dæmi um eldra mál þar sem 18 mánaða dómur féll fyrir innflutning á innan við kíló af kókaíni. Þá sagði saksóknari að fordæmi væru fyrir því að dómar fyrir smygl á kókaíni væru þyngri en fyrir innflutning á öðrum efnum. 

Mennirnir tveir sem reyndu að flytja efnin inn játuðu sök fyrir dómi í upphafi aðalmeðferðar, 17. janúar, að hafa ætlað að flytja efnin inn, en sögðust hafa haldið að þeir væru að flytja inn mun minna magn, tvö til þrjú kíló. Þeir töldu að þeir myndu fá greidda eina milljón króna fyrir hvert kíló af fíkniefnum sem þeir myndu flytja til landsins. 

Mennirnir þrír eru í dag 21 til 23 ára gamlir. Þriðja sakborningnum er gefið að sök að hafa fengið hina tvo til að flytja efnin til landsins og að hafa látið þá hafa pening fyrir flugmiðum, gistingu og uppihaldi í ferðinni. Í ákærunni er honum einnig gefið að sök að hafa gefið hinum tveimur fyrirmæli í gegnum samskiptaforrit fyrir ferðina og á meðan henni stóð. 

Upp komst um málið á alþjóðaflugvellinum í Frankfurt þegar taska annars þeirra fannst. Þeir fóru í sömu vél frá Þýskalandi og hafði þarlend lögregla þá samband við lögreglu hér á landi og ákveðið var að stöðva för hins sakborningsins og á Keflavíkurflugvelli fundust fíkniefni í fölskum botni í tösku hans. 

Líkt og áður sagði fara verjendur allra þriggja fram á að þeir verði sýknaðir eða dæmdir til vægustu refsingar. Allir vísuðu verjendur til ungs aldurs sakborninga og að þeir hafi ekki brotið af sér áður.

Var tvítugur gripinn fyrir fíkniefnainnflutning

Sá yngsti var aðeins tvítugur þegar hann gerði tilraun til að flytja efnin til landsins. Hann, líkt og hinir, hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan. Verjandi hans sagði að framkoma hans síðan málið kom upp hafi verið til fyrirmyndar og að hann hafi gefið lögreglu mikilvægar upplýsingar sem nýttust við rannsókn málsins. Verjandinn vísaði til þess sem kom fram við upphaf aðalmeðferðar 17. janúar að hann iðrist og hefði ekki samþykkt að flytja fíkniefnin til landsins ef hann hefði vitað hve mikið þetta var, tæp átta kíló.

Mennirnir tveir sem fóru til Amsterdam hafa sagt að þeir hafi ekki vitað hvor af öðrum og lögðu verjendur þeirra áherslu á það í málflutningi sínum í dag að því væri þetta ekki samverknaður. Verjandi hins sakborningsins, sem gerði tilraun til að flytja efnin til landsins, sagði að þeir hafi verið mjög ósáttir þegar þeir komust að því að þeir væru ekki einir á ferð. Þá kvaðst verjandi hans telja að ásetningur ætti aðeins að ná yfir innflutning á tveimur til þremur kílóum af kókaíni. Þá nefndi hann einnig ungan aldur og að sakborningur hafi verið með hreint sakavottorð, hefði sýnt mikla iðrun og mikinn vilja til að beina lífi sínu í betra horf. Þá hafi hann sýnt mikinn samstarfsvilja í yfirheyrslum hjá lögreglu. 

Verjandi segir sannanir skorta

Verjandi þess sem ákærður er fyrir að hafa fengið hina tvo í ferðina sagði engar sannanir liggja fyrir, aðrar en orð hinna tveggja. Hann krafðist því sýknu á þeim forsendum að brotin væru ósönnuð. Verjandinn segir hina tvo vilja fegra sinn hlut í brotinu á kostnað þess sem ákærður er fyrir skipulagninguna. Sá er einnig ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa á ákveðnu tímabili tekið við eða aflað 19 milljóna króna með sölu og dreifingu á fíkniefnum. Sakborningur sagði fyrr í aðalmeðferðinni að stór hluti væru lán bæði til og frá vinum og kunningjum og eins millifærslur vegna fjárhættuspila. Aðeins lítill hluti væri vegna fíkniefnasölu. Verjandinn sagði að í ákærunni væri ekki verið að meta allan vafa sakborningi í hag. 

epa06440629 Sri Lanka police personnel inspects 928 kg and 229 grams of Cocaine valued approximately at 1.2 million US dollars seized by the Police Narcotics Bureau and to be destroyed at Puttalam at Katunayake in Colombo, Sri Lanka, 15 January 2018. This consignment of Cocaine had been taken into custody by the Sri Lanka Police Narcotics Bureau on the high seas off Sri Lanka while aboard a merchant ship ?Equador? on its way to Belarus via India. On completion of legal procedures, the judiciary handed over the consignment to a private company to be destroyed under its supervision. The initial preparations for destruction were carried out in Katunayake and the stock of Cocaine would later be completely destroyed at Puttalam.  EPA-EFE/M.A.PUSHPA KUMARA
 Mynd: EPA

Tveir segjast ekki vita hver höfuðpaurinn er

Sá sem er sakaður um skipulagningu innflutningsins játaði fyrr í aðalmeðferðinni að hafa ætlað í ferðina örlagaríku. Þegar vinur hans, sem var í fjárhagserfiðleikum vegna spilaskulda, hafi leitað til hans hafi hann ákveðið að leyfa honum frekar að fara. Sá sem ákærður er fyrir skipulagningu brotsins kveðst líka hafa haldið að það ætti að flytja inn 2 til 3 kíló af efnum. Verjandi hans sagði í dag að sá hafi aldrei haft tækifæri til að kanna magnið þar sem hann var ekki í Amsterdam. Verjandinn lagði því til að ef hann yrði dæmdur sekur yrði það fyrir að hámarki innflutning á fjórum til sex kílóum. Þá hafi þeir allir sagt að þessi hafi ekki verið höfuðpaurinn. Hinir tveir segjast ekki vita hver það er og sá þriðji, sem ákærður er fyrir skipulagningu, vill ekki gefa það upp af ótta.

Játar sök að hluta vegna peningaþvættis

Annar þeirra sem flutti efnin inn til landsins er einnig ákærður fyrir peningaþvætti vegna um sex milljóna króna sem talið er að hann hafi aflað með sölu fíkniefna. Hann hefur játað sök að hluta. Verjandi hans segir að upphæðin sem ákært sé fyrir sé of há og að stór hluti millifærslna á reikning hans sé vegna fjárhættuspila og lána til og frá vinum og kunningjum. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi