Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja að öll rekstrarleyfi verði tímabundin

21.05.2019 - 08:04
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis vill breyta lögum um fiskeldi þannig að rekstrarleyfi í greininni verði öll tímabundin. Nú eru bæði gefin út ótímabundin rekstrarleyfi og rekstrarleyfi til sextán ára. Meirihlutinn leggur til, í áliti sínu á frumvarpi um breytingar á lögum um fiskeldi, að öll rekstrarleyfi verði til sextán ára.

Nefndin fékk fulltrúa fjölda fyrirtækja, samtaka, stofnana og ráðuneyta á sinn fund við málsmeðferðina. Þar var bent á að misræmis gætti í útgáfu rekstrarleyfa, sem væru ýmist ótímabundin eða til sextán ára. Í nefndarálitinu segir að þau sjónarmið hafi komið fram að ótímabundnum rekstrarleyfum mætti jafna til óbeins eignarréttar yfir sameiginlegri auðlind. 

Meirihluti atvinnuveganefndar leggur til að allir rekstrarleyfishafar sitji við sama borð og að ótímabundnu rekstrarleyfin sæti endurskoðun rétt eins og rekstrarleyfi sem gefin eru út til ákveðins tíma. 

Í áliti og breytingartillögum meirihluta atvinnuveganefndar er einnig lagt til að gjaldtöku verði háttað þannig að hvati sé til að stunda lokað sjókvíaeldi til að tryggja að eldisfiskur sleppi ekki út í náttúruna. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV