Vilja að Kjarninn fjarlægi skýrslu af vef

23.08.2013 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjármálaeftirlitið hefur farið fram á það við forsvarsmenn fjölmiðilsins Kjarnans að hann fjarlægi skýrslu um fjármálafyrirtækið SpKef af vef sínum. Ritstjórn Kjarnans hyggst ekki verða við því.

Ástæða þess að Fjármálaeftirlitið vill skýrsluna af vefnum er sú að í henni eru upplýsingar um fjármál og viðskipti margra nafngreindra viðskiptavina bankans og einnig um nafngreinda starfsmenn SpKef. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að lögum um fjármálafyrirtæki sé fylgt. Í lögunum er ákvæði um þagnarskyldu þar sem segir meðal annars að þeir sem veiti viðtöku upplýsingum sem varða viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna séu bundnir þagnarskyldu. 

Fyrsta útgáfa Kjarnans kom út í gær. Þar er úttekt á SpKef og birt opinberlega, að því er segir á miðlinum, svört leyniskýrsla endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers um Sparisjóðinn í Keflavík. Hún er á fimmta hundrað blaðsíðna og var unnin af PwC fyrir Fjármálaeftirlitið og skilað í apríl 2011. Í Kjarnanum segir að ekki hafi staðið steinn yfir steini í rekstri sparisjóðsins. 

Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans segir að skýrslan verði ekki fjarlægð af vef fjölmiðilsins. Ritstjórn Kjarnans telji að skýrslan eigi erindi við almenning enda hafi gjaldþrot SpKef kostað almenning, það er ríkissjóð 26 milljarða króna.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi