Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja að bærinn standi við gerðan samning

07.10.2019 - 13:27
default
 Mynd: G. Starri Gylfason - RÚV
Siglingaklúbburinn Nökkvi á Akureyri hefur farið þess á leit við bæjarstjórn Akureyrar að samningur um byggingu bátahúss félagsins, sem gerður var árið 2014, verði efndur. Formaður félagsins segir núverandi aðstöðu algerlega óviðunandi.

Samningur frá árinu 2014

Árið 2014 gerði Akureyrarbær og Nökkvi samning um byggingu á nýrri félagsaðstöðu. Samningurinn hljóðaði upp á 75 milljónir og átti framkvæmdum að ljúka árið 2018. Rúnar Þór Björnsson, formaður Nökkva segir bæjaryfirvöld hafa tekið fram fyrir hendur félagsins árið 2016 þegar ákveðið var að teikna nýtt og mun dýrara hús.

„Þau tóku af okkur framkvæmdir 2016 afþví að við vorum að fara að byggja hús sem þeim fannst ekki nógu huggulegt og eftir það fór þetta í fínan farveg. Og í fyrra var ætlað í þetta einhverjar 100 milljónir í uppbygginguna sem átti að byrja síðastliðið haust. En þá bara allt í einu gufaði upp fjárveitingin,“ segir Rúnar.

Núverandi aðstaða ekki boðleg

Rúnar segir núverandi aðstöðu ónothæfa og hvetur bæjaryfirvöld til að finna lausn á málinu.

„Við vonumst bara til menn standi við samninga og bara hitti okkur og komi þá með aðrar lausnir og við bara byrjum.“