Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja að Áslaug Arna grípi til aðgerða strax

24.09.2019 - 09:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar, segir það eiginlega með ólíkindum að dómsmálaráðherra skuli ekki hafa tjáð sig um stöðuna innan lögreglunnar nú þegar allir lögreglustjórar nema einn hafa lýst yfir vantrausti á Harald Johannessen, ríkislögreglustjóra. Páll Magnússon, formaður allsherjar-og menntamálanefndar, segir ástandið innan lögreglunnar komið á það stig að grípa verði inn í það strax.

Allir lögreglustjórar á landinu nema Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, lýstu því yfir í gær að þeir treystu ekki Haraldi Johannessen, ríkislögreglustjóra.

Úlfar Lúðvíksson, formaður Lögreglustjórafélags Íslands, sagði í viðtali við RÚV síðdegis í gær að samstarf þeirra við Harald síðustu fimm ár hefði verið þyrnum stráð og borið á samskiptaleysi.  Landssamband lögreglumanna tók í sama streng í yfirlýsingu sem sambandið sendi frá sér í gær, lýst var yfir vantrausti á Harald og skorað á hann að stíga strax til hliðar.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar, segir að nú dugi ekki lengur fyrir dómsmálaráðherra að vísa í einhverja nefnd. „Áslaug Arna þarf að íhuga hvort hagsmunir lögreglunnar í heild vegi ekki þyngra en hagsmunir Haraldar.“ Þórhildur segist vera með það í skoðun hvort þetta mál komi inn á borð stjórnsýslunefndar en hún ætli að leyfa því að þróast aðeins frekar. „Það þurfa mjög alvarlegir hlutir að ganga á til að jafn margir háttsettir embættismenn grípi til svona örþrifaráðs,“ segir Þórhildur. Dómsmálaráðherra þurfi að gera eitthvað strax og helst verði einhverjar aðgerðir að sjást fyrir helgi. 

Páll Magnússon, formaður allsherjar-og menntamálanefndar segir að ástandið innan lögreglunnar virðist komið á það stig að grípa verði inn í þetta strax og ekki sé hægt að bíða eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar. „Það er algjörlega óviðunandi að einmitt þessi starfsemi skuli loga stafnanna á milli í illdeilum.“ Páll telur að viðtal sem Haraldur veitti Morgunblaðinu hafi leyst úr læðingi mikla og grasserandi óánægju. Hann ætli þó ekki gefa einhverja forskrift með hvað hætti það eigi að bregðast við en við þetta ástand verði ekki unað deginum lengur.  Páll segir að þessar deilur geti haft áhrif á traust til lögreglunnar og það sé einmitt af þeirri ástæðu sem það verði að grípa inn í strax