Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Vilhjálmur segir af sér hjá Samfylkingunni

31.03.2016 - 00:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vilhjálmur Þorsteinsson hefur sagt af sér sem gjaldkeri Samfylkingarinnar. Þetta tilkynnti hann laust fyrir miðnætti en fjallað hefur verið um félag sem hann á í Lúxemborg. Hann segir í bloggfærslu að persónulegar skattgreiðslur hans séu þær sömu og ef eignarhaldsfélagið hefði verið íslenskt.

„En þrátt fyrir allt sem að ofan er sagt, má augljóst vera að svona flókið eignarhalds- og fjárfestingadæmi hjá gjaldkera Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands er lítt til þess fallið að fókusera umræðuna sem nú stendur yfir um aflandsfélög og skattaskjól á það sem máli skiptir: ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann í landinu," segir Vilhjálmur.

„Ég hef því ákveðið að segja af mér embætti gjaldkera Samfylkingarinnar, og styð stjórnarandstöðuna eindregið í því að kalla fram ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna á sínu fólki.“

Vilhjálmur segir skattahagræði ekki ástæðuna fyrir því að félag hans sé í Lúxemborg. Heldur sé þar fyrst og fremst krónunni, gjaldeyrishöftum og óstöðugleika íslensks efnahags- og stjórnmálaumhverfis um að kenna. Hann segir félagið ekki hafa átt kröfur á íslensku bankana og ekki hafa notfært sér fjárfestingaleið Seðlabankans.

Hann segir félagið vera venjulegt hlutafélag og hann greiði af því 21,84 prósenta tekjuskatt í Lúxemborg. Hér á landi borgi hann alla skatta og skyldur sem honum beri. Hann greiði tekjuskatt af launum, hafi greitt auðlegðarskatt meðan hann var og hét og greiði fjármagnstekjuskatt af öllum arði.

 

Ég er á ferðalagi erlendis en náði loksins í kvöld að pikka inn þennan pistil á iPad. Heilmiklar útskýringar og svo rúsína í pylsuendanum.

Posted by Vilhjálmur Þorsteinsson on 30. mars 2016

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV