Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vildu strika yfir Sjómannadaginn og tendrun jólaljósa

30.01.2020 - 16:46
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Magnússon - Skessuhorn
Menningar-og safnanefnd Akranesbæjar telur að þeir fjármunir sem nefndin fær dugi ekki fyrir fyrirhuguðum viðburðum og hátíðarhöldum sem haldnir eru árlega. Því sé ekkert annað í stöðunni en að fækka þeim og leggur nefndin því til að hætt verði að halda upp á Írska vetrardaga og Sjómannadaginn og að engin sérstakur viðburður verði tengdur tendrun jólaljósa á jólatréi á Akratorgi.

Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar frá því í síðustu viku. 

Málið var kynnt á fundi bæjarráðs í dag þar sem Ella María Gunnarsdóttir, forstöðumaður menningar-og safnanefndar, tók sæti undir þeim lið. 

Í bókun sem bæjarráð samþykkti kom fram að það gæti ekki orðið við beiðni um aukin fjárútlát umfram samþykkta fjárhagsáætlun. „Bæjarráð beinir því að menningar- og safnanefnd að endurskoða áætlanir sínar að teknu tilliti til styrkja og framlags Akraneskaupstaðar.“

Írskir vetrardagar eru haldnir um miðjan mars og Sjómannadagurinn hefur alltaf verið stór þáttur í lífi Skagamanna. Þá hefur yfirleitt verið mikið um að vera þegar jólaljósin eru tendruð á jólatrénu á Akratorgi.

Uppfært: Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir í bréfi til fréttastofu að þessar hátíðir verði haldnar. Fyrirsögninni hefur verið breytt í samræmi við það

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV