Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vildi fá að bera upp bónorðið í fangageymslu lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Erlendur ferðamaður leitaði til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu nú á dögunum og óskaði eftir aðstoð lögreglu við að biðja kærustu sinnar. Ferðamaðurinn hafði séð fyrir sér að bera upp bónorðið í fangaklefa. Að öðru leyti var hugmynd ferðamannsins ekki alveg fullmótuð. Beiðnin var tekin til efnislegrar meðferðar hjá lögreglu.

Með óvenjulegri beiðnum sem ratað hafa á borð lögreglu

Á Facebook-síðu lögreglunnar segir að lögreglunni berist beiðnir og fyrirspurnir um allt á milli himins og jarðar. Sumum sé hægt að verða við, en öðrum ekki, eins og gengur og gerist. 

Beiðninni í umræddu tilfelli, sem sögð er vera ein af þeim óvenjulegri sem ratað hefur á borð lögreglu, var „hafnað hjá embættinu þótt um margt væri hún áhugaverð.“ Því kom ekki til þess að hugmynd mannsins væri fullunnin í samráði við lögregluna. Honum var þó óskað góðs gengis með bónorðið.

Aðstæður í fangageymslum ekki rómantískar

Lögreglan segir að ekki þurfi að hafa mörg orð um ástæður neitunarinnar „en aðstæður í fangageymslunni eru sjaldan eða aldrei rómantískar og starfsemin þar jafnan viðkvæm svo aðeins það sé nefnt til sögunnar.“

Þá var ekki að skilja að parið ætti sér sögu sem tengdist fangageymslum á einhvern hátt. Raunar hafi hugmyndin að bónorðinu kviknað í kjölfar þess að hann skoðaði myndir frá lögreglunni á Instagram.

Ekki er vitað að svo stöddu hvort bónorðið heppnaðist, hvar það var borið upp eða hvort kærastan sagði já. „Lögreglan vonar samt að það hafi verið raunin og að málið hafi fengið farsælan endi.“