Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vildi ekki taka athyglina frá öðrum

Mynd: RÚV / RÚV

Vildi ekki taka athyglina frá öðrum

26.11.2019 - 18:00
Margrét Lára Viðarsdóttir tilkynnti í dag um ákvörðun sína að hætta í fótbolta eftir 19 ára feril í meistaraflokki. Margrét er markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi og komst ansi nærri markameti Olgu Færseth í efstu deild í sumar. Þrátt fyrir að leikmannaferlinum sé lokið verður fótbolti áfram ástríða Margrétar Láru.

Markadrottningin Margrét Lára er fædd í júlí 1986, uppalin hjá ÍBV í Vestmannaeyjum og spilaði fyrsta meistaraflokksleikinn fimmtán ára gömul. Hún spilaði með ÍBV til 2004 þegar hún færði sig yfir til Vals áður en hún hélt út í atvinnumennsku. Lengst af spilaði hún á atvinnumannaferlinum með sænska liðinu Kristianstad 2009-2011 og 2012-2015 áður en hún sneri aftur heim í Val. Hún spilaði alls 101 leik fyrir Kristianstad og skoraði í þeim 48 mörk. Árið 2007 skoraði hún 38 mörk í sextán leikjum fyrir Val, blómstraði jafnframt með landsliðinu og var kjörin Íþróttamaður ársins. Alls urðu leikirnir í meistaraflokki hér heima 180 og mörkin 255. En af hverju ákvað Margrét að hætta á þessum tímapunkti?

„Af hverju ekki? Ég er virkilega þakklát fyrir árið í Val og að koma til baka eftir erfið meiðsli og barnsburð er ekki auðgefið. Fyrst og fremst er ég bara þakklát fyrir að hafa komist til baka og náð líka þessum góða árangri með liðinu og sem einstaklingur, að komast aftur á þann stað að vera góð. Það var alltaf markmiðið, þannig að mér fannst bara kjörið tækifæri að stíga til hliðar núna og segja þetta gott.“ segir Margrét Lára.

„Ég kveð virkilega sátt og gæti ekki verið stoltari“

Margrét Lára átti gott sumar með Val þar sem liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn síðan 2010 er hún skoraði 15 mörk í 17 leikjum, aðeins marki minna en liðsfélagar sínir Elín Metta Jensen og Hlín Eiríksdóttir sem voru markahæstar í deildinni auk Berglindar Bjargar Þorvalsdóttur úr Breiðabliki sem allar skoruðu 16 mörk. Það kom því eflaust mörgum á óvart að Margrét skildi hætta núna, þegar hún var komin aftur á flug eftir erfið meiðsli og barnsburð árin á undan.

„Ég væri að ljúga að þér ef ég segði að þetta hefði verið auðveld ákvörðun. Þetta var mjög erfið ákvörðun og ég er svona búin að vera hugsa þetta í svolítið langan tíma. Þegar ég lenti í meiðslunum hugsaði ég hvort þetta væri komið gott en ég ákvað að taka slaginn aftur og leið vel og sé ekki eftir því í dag.“

„Ég hef alltaf viljað enda á mínum forsendum og geta bakkað út úr ástríðunni að eigin vilja. Ég myndi segja að það væru forréttindi, erfið ákvörðun vissulega, og ég á eftir að sakna ótrúlega margs úr fótboltanum. Ekki bara þess sem gerist innan vallar heldur líka þess sem gerist utan vallar. En ég kveð virkilega sátt og gæti ekki verið stoltari.“

Vinirnir sem standa upp úr

En hvernig var fyrir Margréti að tilkynna þjálfurum, vinum og liðsfélögum ákvörðunina?

„Það hefur náttúrulega verið gríðarlega erfitt fyrir mig og ég hef fellt ansi mörg tár á leiðinni en líka gott. Ég mætt miklum skilningi frá öllum, Valur og fjölskyldan mín hefur staðið þétt við bakið á mér en ákvörðunin er tekin og mér líður vel með hana, það er það sem skiptir mestu máli.“ segir Margrét Lára en hverjir voru hápunktarnir á farsælum ferli hennar?

„Þeir eru ótrúlega margir, allir titlarnir bæði hér heima og erlendis, og einstaklingsverðlaunin líka. En ég held að það fólk sem ég hef kynnst á leiðinni og þeir vinir sem ég hef eignast, ég held að það sé það sem standi upp úr.“

Vildi ekki taka athyglina frá öðrum

Margrét Lára segir að ákvörðunin að hætta hafi verið í huga hennar frá miðju tímabili en hún vildi ekki taka athyglina frá markmiði Vals að klára langþráðan Íslandsmeistaratitil.

„Þetta blundaði alveg í mér frá miðju tímabili að þetta væri mögulega eitthvað sem ég ætlaði mér að gera. En ég vildi aldrei að einbeitingin eða athyglin færi á mig, ég vildi klára titilinn með Val og njóta augnabliksins og leyfa öðrum leikmönnum að njóta þess. Ég vildi ekki vera að stela athyglinni á þeim tímapunkti,“

Margrét Lára sem lék sinn síðasta leik á ferlinum með íslenska landsliðinu gegn Lettlandi ytra 8. október síðastliðinn. Eftir að hafa komið inn á sem varamaður á 66. mínútu skoraði Margrét Lára með síðustu snertingu leiksins er hún gulltryggði 6-0 sigur Íslands. Mark Margrétar var hennar 79. fyrir Íslands hönd í hennar 124. og síðasta landsleik.

„Það sama með leikinn í haust með landsliðinu. Ég vissi innst inni að þetta væri minn síðasti landsleikur og að skora með síðustu snertingunni í leiknum var svona svolítið ljóðrænt fyrir mig. En sama þar ég vildi ekki að athyglin eftir leik færi á mig - það sem skipti mestu máli var að Ísland náði í þrjú mikilvæg stig á útivelli og svo heldur lífið áfram. En nú er ákvörðunin tekin og ég var tilbúin að opna mig með það núna og ég held það sé góður tímapunktur þar sem ég held að ég sé ekki að stela athyglinni frá neinum nema kannski jólaundirbúningnum hjá sumum.“ segir Margrét og hlær við.

„Vil halda áfram að leggja knattspyrnunni lið“

Margrét Lára hefur unnið í vetur sem sérfræðingur um enska fótbolta hjá Símanum Sport og var að auki sérfræðingur RÚV í kringum HM kvenna síðasta sumar. Hún segir ástríðu sína fyrir fótbolta ekki fara þrátt fyrir að leikmannaferlinum sé lokið. Þá útilokar hún ekki að þjálfa í framtíðinni.

„Þetta er náttúrulega bara mín ástríða og hún hverfur ekkert. Ég er nú svo lánsöm að fá að vinna við fótbolta og greina fótbolta í hverri viku. Þannig að það er góður vettvangur til að halda sér við og svo er aldrei að vita nema maður taki fram einhverja þjálfarahanska eða skó þegar að því kemur. Það verður bara tíminn að leiða í ljós en ég vil halda áfram að leggja knattspyrnunni lið því þetta er mín ástríða og verður það áfram.“ segir Margrét Lára.

Viðtal við markadrottinguna Margréti má sjá í spilaranum að ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Margrét Lára hætt í fótbolta