Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vildi ekki „kasta hjónabandinu á sorphaugana“

Mynd: Svona fólk / Svona fólk

Vildi ekki „kasta hjónabandinu á sorphaugana“

29.10.2019 - 14:40

Höfundar

Árið 2006 var frumvarp lagt fyrir Alþingi um margvíslegrar réttarbætur fyrir samkynhneigða, sem meðal annars leyfði þeim að ganga í hjónaband og ættleiða börn. Þjóðkirkjan og Karl Sigurbjörnsson þáverandi biskup mótmæltu hins vegar breytingartillögu sem Guðrún Ögmundsdóttir setti fram – sem veitti prestum þjóðkirkjunnar heimild til að gefa saman samkynja pör.

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur segir að biskupinn og prestar hafi beitt sér hart gegn breytingartillögunni. „Þeir voru að hringja í þingmenn og fara á fundi með þeim til að koma í veg fyrir að við fengjum tiltekin lagaleg réttindi á við gagnkynhneigða samborgara okkar,“ segir Baldur. „Eitt var að glíma við gallaklerka lítilla sértrúarsöfnuða, það er eitt. En að þurfa að glíma við biskupinn yfir Íslandi og þjóðþekkta klerka sem stóðu með honum í þessu máli, það sárnaði manni, það var erfitt. En það þýddi ekkert að gefa eftir og það varð bara að taka þennan slag.“

Mynd með færslu
 Mynd: Svona fólk
Baldur Þórhallsson.

Á sama tíma og þjóðkirkjan barðist á bak við tjöldin gegn því að þurfa að gefa saman samkynja pör stóð hún að endurútgáfu lagsins Hjálpum þeim til styrktar alþjóðlegu hjálparstarfi, en það flutti einvala lið tónlistarmanna, þar á meðal landsþekktir hommar eins og Páll Óskar og Friðrik Ómar. „Alls staðar í öllum kirkjum er deilt um þetta,“ sagði Karl Sigurbjörnsson þegar Helgi Seljan gekk á hann í viðtali við NFS á nýársdag 2006. „Það sem býr að baki er það að kirkjan hefur um langa hríð gengið út frá ákveðinni skilgreiningu í þessum efnum. Nú er kallað eftir því að þeirri skilgreiningu sé breytt. En ég vil bara orða það þannig: Ég held að hjónabandið eigi það inni hjá okkur að við köstum því ekki á sorphauginn án þess að hugsa okkar gang.“

Orðum biskups var mótmælt harkalega og heimildin til trúfélaga að gefa saman samkynja pör var inni í frumvarpinu þegar það var samþykkt. Baldur Þórhallsson segir þessa mótstöðu kirkjunnar hafa verið mikinn afleik. „Þetta er náttúrulega helsta ástæðan fyrir því að hópar fólks, þúsundir manna, fóru að segja sig úr þjóðkirkjunni á þessum tíma. Þetta er í raun byrjunin á því að fólk fari að yfirgefa þjóðkirkjuna. Þannig hún fór nú ekki vel út úr þessari viðureign.“

Fjallað var um andstöðu Þjóðkirkjunnar við að gefa saman samkynja pör í síðasta þætti af Svona fólki. Hægt er að horfa á þáttinn í heild auk eldri þátta í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Samtökin '78 skuldi tveimur kynslóðum afsökun

Innlent

Siðrof þegar hætt var að kenna kristinfræði

Sjónvarp

„Ég ætla ekki að enda svona“

Sjónvarp

„Ég samhryggist þeim sem kynna sér ekki mál“