Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Vilborg bíður eftir flugi til Síle

20.01.2013 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Vilborg Arna Gissurardóttir pólfari er nú í Union Glacer búðunum og bíður eftir að komast með næsta flugi til Síle. Hún komst frá Suðurpólnum í fyrradag ásamt fjórum Suður-Afríkumönnum sem höfðu farið á pólinn á skíðum.

Þó mátti ekki miklu muna að Vilbrog og Suður-Afríkumennirnir kæmust af Suðurpólnum í fyrradag því veður var slæmt. Hins vegar skánaði veður í stutta stund og þá var hægt að fljúga frá Suðurpólnum til Union Glacier búðanna, sem eru starfræktar af ALE, sem bjóða upp á aðstoð við pólfara. Hefði það ekki tekist í fyrradag hefði Vilborg ef til vill þurft að bíða nokkra daga eftir að veður lægði svo hægt væri að fljúga frá pólnum.

Jeffrey Donenfeld, sem starfar í Amundsen Scott heimskautsstöðinni, tók á móti Vilborgu þegar hún komst á Suðurskautið. Hann heldur úti bloggsíðu þar sem hann segir að Vilborg hafi verið afskaplega glöð þegar hún komst á Suðurpólinn og að svo virtist sem hún hefði það gott eftir þessa löngu og erfiðu göngu.

Jeffrey og Vilborg á Amundsen-Scott stöðinni. Mynd: Jeffrey Donenfeld.