Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vil ankannalegt tvist í því sem ég skoða

Mynd: Ruv mynd / Ruv mynd

Vil ankannalegt tvist í því sem ég skoða

27.10.2019 - 13:10

Höfundar

Myndlistarkonan Ólöf Nordal vinnur oftar en ekki með íslenskan þjóðararf í verkum sínum. „Ég leik mér að honum og túlka hann útfrá mínum samtíma, nota hann til að tækla ákveðin málefni sem eru í kringum okkur í dag,“ segir Ólöf en ný yfirlitssýning á verkum hennar var opnuð á Kjarvalsstöðum um síðustu helgi.

Sýningin heitir Úngl en nafnið kemur úr þjóðsögu þar sem Kolbeinn jöklaskáld sigrar sjálfan Kölska í hagyrðingakeppni á Þúfubjargi undir Jökli. Það gerir Kolbeinn með því að finna upp þetta bullorð til að ríma við orðið tungl. Undir fullu tungli steypist Kölski ofan af bjarginu þegar hann játar sig sigraðan

„Orðið er náttúrulega ekki til, bara hreinn og klár skáldskapur en frumleg og frjáls hugsun hjá skáldinu sem er svo sterk að hún getur sigrast á hinu illa,“ segir Ólöf í viðtali í Víðsjá á Rás 1. Úngl er þriðja sýningin í röð árlegra sýninga á Kjarvalsstöðum þar sem sjónum er beint að ferli starfandi listamanna sem þegar hafa sett svip sinn á íslenska listasögu. Verkin á sýningunni endurspegla allan feril Ólafar, elsta verkið er frá 1992 en það yngsta varð bara til í síðustu viku í tengslum við sýninguna. 

Mór og torf

Ólöf hefur gert þrjú ný verk fyrir sýninguna þar sem hún notast við mó og torf úr íslenskri náttúru. Hún hefur til dæmis byggt heljarmikinn móhrauk í salnum sem hlaðinn er úr mó sem tekinn var langt úti í fjöru á stórstreymi á Snæfellsnesi. Ólöf segir að það sé eiginlega allt sem er heillandi við móinn. 

„Þetta er sex til tíuþúsund ára gamall skógarbotn og það er eitthvað sérkennilegt við það að halda á laufum og greinum frá þessum tíma sem er svo langt frá okkur að maður skynjar það eiginlega ekki. Þetta var auðvitað notað sem eldiviður á sínum tíma í landi þar sem ekki var um annað að ræða og svo var hefð fyrir því að safna mó og þurka og hlaða upp í móhrauka. Og þetta voru bara skúlptúrar, fólk var stolt af þessu og tók til dæmis af þeim ljósmyndir. Ég er náttúrulega myndhöggvari, þó að hér séu ljósmyndaverkin mín áberandi en ég skilgreini ljósmyndirnar mínar líka sem skúlptúra.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ruv mynd
Ólöf við móhraukinn forna og nýja.

Þráðurinn

Ólöf er ánægð með að fá yfirlitssýningu með verkum sínum á miðjum ferli. „Mér finnst gaman að sýna öðrum þráðinn í verkunum mínum. Ég held að margir hafi haldið að ég gerði bara það sem mér dytti í hug hverju sinni og það væri ekkert samhengi í verkunum mínum. Það er mjög eðlilegt vegna þess að ég hleyp á milli stíla og tækni eins og mér sýnist. En það er samt alltaf ákveðinn þráður sem liggur aftur í tímann sem er í öllum verkunum og þessi leit frá hinu persónulega til þess almenna. Öll verkin mín hafa mjög persónulegan útgangspunkt en á endanum er ég að tækla stór mál í þeim, eins og loftslagsmál, sjálfsmynd Íslendinga eða útrýmingu tegunda. Ég rannsaka bara það sem ég hef áhuga á, eins og listamaður og með augunum. Í efniviðnum kem ég oft auga á eitthvað sem vísindamenn gera ekki vegna þess að þeir eru ekki að horfa,“ segir Ólöf.

Tónlistin í innslaginu hér að ofan er úr gamalli skissubók Jóns Nordals, tónskálds og föður Ólafar, en upptakan er hluti af einu verkanna. Það var Snorri Sigfús Birgisson sem tók að sér að leika tónefnið upp úr bókinni. Ólöf segir að slíkar tilraunir við píanóið hafi verið hljóðrás æskuára hennar.

Nánari upplýsingar um Úngl er að finna á heimasíðu safnsins. 

Tengdar fréttir

Myndlist

Tárast alltaf yfir fegurðinni í Bíldudal

Sjónvarp

Góðir landsmenn og Sequences í Lestarklefanum

Myndlist

Víkingaklappið hoggið í við