Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vil að myndirnar nái inn í kviðinn frekar en höfuðið

Mynd: RÚV / RÚV

Vil að myndirnar nái inn í kviðinn frekar en höfuðið

29.02.2020 - 12:13

Höfundar

Transit er yfirskriftin á sýningu Daníels Magnússonar í Hverfisgallerí en þar sýnir listmaðurinn ljósmyndir sem hann hefur tekið undanfarin áratug og mynda eins konar „lím í samfellu“ tilverunnar eins og hann kemst að orði.

„Ég kalla þessi verk stundum þöglu myndirnar,“ segir Daníel um myndirnar. „Þær eru bæði kyrrar og þöglar. Það sem ég reyni að ná er augnablik þar sem frásögnin er nægjanleg. Staðirnar sem ég vel eru ekki endilega með neina stórkostlega frásögn. Þeir eru dæmdir til að vera ómerkilegir ef svo má segja, það eru þeirra örlög. En markmiðið hjá mér er að reyna að fá þá til að segja eitthvað, og helst eitthvað um tign eða mikilfengleika.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Transit er í Hverfisgalleríi til 28. mars.

Daníel sækist ekki eftir að myndir höfði til vitsmuna. „Ég vil miklu frekar að myndin taki mig líkamlega, nái í kviðinn á manni. Þessa vegna hef ég talað um að þessar myndir hafi ákveðinn trommutakt. Hann er á gönguhraða, eða hraða hjartsláttarins. Ég held að sá taktur sé okkur náttúrulegur. Þegar ég hef skoðað þessar myndir og farið yfir þær hef ég beinlínis sorterað þær eftir því hvort þessi taktur sé þarna.“ 

Daníel segir að list snúist um skáldskap og það eigi við myndirnar hans. „Ég er týrant yfir verkunum mínum. Ég segi: Þessi mynd, þetta sjónarhorn, segir þetta. Svo verður bara hver að sjá fyrir sig.“

Fjallað var um sýninguna í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.