Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Víkur vegna fyrri starfa hjá Landvernd

Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra verður staðgengill Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, vegna ákvörðunar um friðlýsingu landslagsverndarsvæðis í Kerlingarfjöllum. Friðlýsingin hefur lengi staðið til. Ráðherra víkur sæti þar sem hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra Landverndar á þeim tíma sem samtökin sendu Umhverfisstofnun umsögn um málið.

Friðlýsing Kerlingarfjalla staðið til í nokkur ár

Vinnan við friðlýsingu Kerlingarfjalla hófst árið 2013. Gert var hlé á vinnunni árið 2014 og hún hófst að nýju í lok 2015. Áætlað var að friðlýsing yrði undirrituð þá um sumarið. Ákveðið var að bíða svo með friðlýsinguna þar til niðurstaða Skipulagsstofnunar lægi fyrir varðandi hótel og hálendismiðstöð í Ásgarði í Kerlingarfjöllum, sem til stendur að reisa.

Hildur Vésteinsdóttir, sem kemur að friðlýsingunni fyrir hönd Umhverfisstofnunar, segir að beðið hafi verið með friðlýsinguna þar til niðurstaða frá Skipulagsstofnun lægi fyrir svo hægt væri að meta hvort deiliskipulag vegna fyrirhugaðra byggingaráforma í Kerlingarfjöllum skaraðist á við friðlýsingaráformin.

Nú, eftir að niðurstaða Skipulagsstofnunar liggur fyrir, hefur friðlýsingartillögu verið vísað til umhverfisráðherra, eða nú staðgengils ráðherra, sem tekur lokaákvörðun í málinu. Umhverfisstofnun leggur til að bráðabirgðaákvæði verði haft með í friðlýsingunni varðandi tengsl við deiliskipulagið. 

Uppbyggingaráform falla illa að landsskipulagsstefnu

Greint var frá því í apríl að Skipulagsstofnun telji uppbyggingaráform í Kerlingarfjöllum falla illa að gildandi landsskipulagsstefnu um hálendið. Sumir kostirnir hafi í för með sér neikvæð áhrif á umhverfi og upplifun ferðamanna af svæðinu.

Vék sæti af sömu ástæðu í byrjun október

Í byrjun októbermánaðar var greint frá því að umhverfisráðherra viki sæti í máli vegna kæru Landverndar gegn ákvörðun Skipulagsstofnunar um að stækkun á Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit þyrfti ekki að fara í umhverfismat, og heilbrigðisráðherra hlypi í skarðið. Guðmundur Ingi var framkvæmdarstjóri Landverndar á þeim tíma þegar kæran var send inn. 

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu hafa fleiri slík tilvik komið upp þar sem ráðherra hefur þurft að víkja vegna fyrri starfa hans hjá Landvernd. Það hafi verið fyrirséð að slík mál gætu komið upp eins og jafnan er þegar menn taka við ráðherraembætti eftir að hafa gengt öðrum störfum. Það sé ekkert óeðlilegt við það en mikilvægt sé að passað sé upp á að fylgja vanhæfisreglum, og víkja þegar það á við, líkt og hér sé verið að gera.