Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Viktor Orban stjórnar með tilskipunum

30.03.2020 - 17:56
epa08315631 Hungarian Prime Minister Viktor Orban delivers his speech about the current state of the coronavirus during a plenary session in the House of Parliament in Budapest, Hungary, 23 March 2020.  EPA-EFE/Tamas Kovacs HUNGARY OUT
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Mynd: EPA-EFE - MTI
Ungverska þingið samþykkti lög í dag sem heimila Viktor Orban forsætisráðherra að stýra landinu með tilskipunum. Hann segir það nauðsynlegt í baráttu við COVID-19 farsóttina.

Tveir þriðjuhlutar þingmanna þurftu að styðja frumvarpið til að það yrði að lögum. Fidesz, flokkur forsætisráðherrans, hefur einmitt drjúgan meirihluta í neðri deildinni. Enda fór svo að frumvarpið var samþykkt með 137 atkvæðum gegn 53. Stjórnarandstæðingar höfðu einkum það að athuga við lögin að ekki var tiltekið hversu lengi Viktor Orban verður heimilt að stjórna með tilskipunum. Peter Jakab, leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins Jobbik, orðaði það svo að lýðræðið í Ungverjalandi hefði verið sett í sóttkví. Yfir eitt hundrað þúsund manns höfðu undirritað áskorun til þingmanna um að fella frumvarpið, en allt kom fyrir ekki.

Stjórnunarhættir hins þjóðernissinnaða Viktors Orbans eru umdeildir. Gagnrýnendur hans segja að með ákvörðun þingsins í dag hafi hann í raun rænt völdum. Hann sé til alls líklegur, til dæmis að fangelsa blaðamenn á óháðum ungverskum miðlum sem leyfa sér að fjalla á gagnrýninn hátt um stjórnarhætti hans.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir ungverskum fréttaskýranda að ekkert sé að óttast. Forsætisráðherrann þurfi einungis að hafa frjálsar hendur við að halda aftur af kórónuveirufaraldrinum. Ekki standi til að hefta málfrelsi eða frelsi fjölmiðla.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV