Víkingur Heiðar á forsíðu Gramophone

Mynd með færslu
 Mynd: Ari Magg - Víkingur Heiðar

Víkingur Heiðar á forsíðu Gramophone

20.03.2020 - 12:30

Höfundar

Víkingur Heiðar Ólafsson prýðir forsíðuna á nýjasta hefti stafrænnar útgáfu Gramophone, virtasta tímaritsins í heimi sígildrar tónlistar. Píanistinn ræðir um nýja plötu í ítarlegu viðtali við ritstjóra tímaritsins.

Víkingur Heiðar Ólafsson gefur út nýja plötu hjá þýska útgáfufélaginu Deutsche Grammophon eftir viku. Platan heitir einfaldlega Debussy – Rameau og á henni er verkum þessara byltingarmanna í tónlist, Claudes Debussy og Jean-Philippes Rameau, stefnt saman.

Víkingi Heiðari eru af því tilefni gerð góð skil í nýjasta hefti stafrænnar útgáfu tímaritsins Gramophone í ítarlegu viðtali og dómi um plötuna.

Mynd með færslu
 Mynd: Gramophone
Víkingur Heiðar á forsíðu Gramophone.

Martin Cullingford, ritstjóri tímaritsins, gerði sér ferð til Íslands í fyrrasumar og tók viðtal við Víking um nýju plötuna. „Rameau var sannarlega vandræðabarn franska barokksins og fútúristi, ég vil sýna hann í því ljósi: gæjann sem var Debussy sinnar kynslóðar, gæjann sem skapaði nýtt tungumál, braut reglurnar og setti tóninn.“ Víkingur lagði mikla vinnu í að setja saman efnisskrá plötunnar. Yfir sex mánaða tímabil kannaði hann hvernig sérhvert tónverk gæti leitt inn í annað. „Ég vil að þessi plata hljómi líkt og hnökralaust samtal milli tveggja vina. Jafnvel án þess að þeir nokkru sinni hitti hvor annan. Og ég vil að þú greinir varla á milli hver sé að tala.“

Öll þessi vinna virðist hafa skilað tilætluðum áhrifum, ef marka má dóm gagnrýnanda Gramophone, sem segir að Víkingur valdi ekki vonbrigðum, þrátt fyrir miklar væntingar eftir síðustu útgáfu hans hjá Deutsche Grammophon. Skrautlegar trillur tónverkanna hefðu hljómað ýktar hjá síðri píanistum, en ekki hjá Víkingi. Tónverkavalið sé innblásið og hápunktar plötunnar séu margir.

Hljómplatan Debussy – Rameau kemur út 27. mars.

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Daníel og Víkingur ljóma á tónleikum í Los Angeles

Klassísk tónlist

Víkingur tónlistarmaður ársins hjá Gramophone

Klassísk tónlist

Meira snobb í Rolling Stones en klassíkinni

Tónlist

Víkingur fær tvenn verðlaun frá BBC