Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vígir nýtt hljóðfæri á hátíð Verksmiðjunnar

Söngvakeppnin úrslitakvöld 3.mars í Laugardalshöll
 Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV

Vígir nýtt hljóðfæri á hátíð Verksmiðjunnar

22.05.2019 - 13:40

Höfundar

Verksmiðjan er nýsköpunarkeppni ungs fólks í 8.-10. bekk þar sem skemmtilegar uppfinningar keppa til verðlauna. Í dag fer fram uppskeruhátíð þar sem Daði Freyr vígir nýtt hljóðfæri sem hannað var í tilefni af keppninni.

Í Verksmiðjunni hafa nemendur í 8.-10.bekk fengið tækifæri til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Þátttakendur keppninnar hafa fengið sérstaka aðstoð við að útfæra hugmyndirnar sínar og útbúa flottar frumgerðir og nú er komið að uppskeruhátíð. 

Daði Freyr, tónlistarmaðurinn nýjungagjarni, kemur þar fram og flytur tónlist með sérsmíðuðu hljóðfæri sem hannað var í tilefni af keppninni. Hljóðfærið var búið til af Daða í samstarfi við Fab Lab og Verksmiðjuna. „Þetta er svokallaður „midi controller“. Þetta er svona hljómborð sem ég get haldið á með ól og ég get stýrt öðrum hljóðfærum með þessu hljóðfæri,“ segir Daði sem hlakkar til að sýna öðrum græjuna.

Mynd: RÚV / RÚV
Daði Freyr segir frá hljóðfærinu.

„Á hljóðfærinu verður ljósaborð sem hægt verður að stýra með því að spila á það, þannig að það fer eftir því hvernig maður spilar á hljóðfærið hvað birtist á skjánum,“ segir Daði.

Uppskeruhátíðin fer fram í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, klukkan 15.00 í dag og þar verða sigurvegarar Verksmiðjunnar kynntir. Hægt er að kynna sér verkefnin tíu á vef UngRÚV.

Verksmiðjan er samstarfsverkefni RÚV, Samtaka iðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Fab Lab á Íslandi, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Rafmenntar og Listasafns Reykjavíkur.