Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vigfús dæmdur í fimm ára fangelsi

09.07.2019 - 13:05
Mynd með færslu
 Mynd: Sólveig Klara Ragnarsdóttir - RÚV
Vigfús Ólafsson var í Héraðsdómi Suðurlands dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa orðið valdur að dauða konu og manns þegar hann kveikti í húsi sínu að Kirkjuvegi á Selfossi í október í fyrra. Kona sem ákærð var fyrir almannahættubrot í sama máli var sýknuð. Dómurinn var kveðinn upp klukkan 13 og var hvorugt þeirra viðstatt.

Vigfús hefur sætt gæsluvarðhaldi frá því í október og dregst það frá dóminum. Honum er gert að greiða aðstandendum hinna látnu á þriðja tug milljóna króna í miskabætur og allan sakarkostnað.  

Hann var ákærður fyrir íkveikju og manndráp, en til vara fyrir íkveikju og manndráp af gáleysi. Hann var sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi. 

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari hafði við aðalmeðferð talað um að hæfileg refsing væri að Vigfús sæti allt að 18 ára fangelsi. Honum hefði mátt vera ljóst að húsið gæti brunnið og að hann hefði vitað að í því væri mikill eldsmatur. 

Í dómsniðurstöðu kemur fram að Vigfús hafi viðurkennt fyrir dómi að hafa fiktað með eld án þess að vita af hverju. Rannsókn hafi leitt í ljós að orsök brunans var íkveikja í stofunni þar sem Vigfús og konan voru.
Þá hafi verkfræðingur talið engan vafa leika á því að almannahætta hafi stafað af brunanum og mikil hætta á stórfelldu tjóni á fólki og eignum. Því þótti sannað að Vigfúsi hafi mátt vera þetta ljóst og því hafi hann gerst sekur um brot sem hafi í för með sér almannahættu, samkvæmt almennum hegningarlögum.

Í dómsniðurstöðu segir jafnframt að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að Vigfús hafi haft beinan ásetning til að verða fólkinu að bana. Ekki sé útilokað að hann hafi aðeins ætlað að skaða sjálfan sig. Hann hafi hinsvegar látið undir höfuð leggjast að slökkva í pappakassa sem hann kveikti í og það gáleysi hefði leitt til þess að tvær manneskjur létu lífið í eldsvoða sem hann beri einn ábyrgð á. Þá segir í dómsniðurstöðu að það verði að telja sannað að Vigfús hafi enga tilraun gert til að aðvara fólkið um eldinn og vörn hans um að hann hefði gleymt því að þau væru í húsinu væru haldlaus. 

Ósannað þótti að konan sem ákærð var í málinu hafi gerst sek um þá háttsemi sem henni var gefin að sök í ákæru og var hún því sýknuð af kröfum ákæruvaldsins og bótakröfum á hendur henni vísað frá dómi. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV