Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Vigdís: Búið að flækja þetta alltof mikið

16.03.2015 - 20:33
Úr Kastljósþætti. - Mynd: Skjáskot / Kastljós
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að ESB-málinu sé lokið af hálfu Íslendinga og sokkið. Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir stjórnarflokkkana ætla að sniðganga þingið eftir að hafa klúðrað málinu á síðasta ári - þetta sé aðför að þingræðinu.

Vigdís og Helgi Hrafn voru gestir Kastljóss í kvöld ásamt Ernu Bjarnadóttur, stjórnarmanni í Heimssýn og Jóni Steindór Valdimarssyni, formanni samtakanna Já Ísland.

Vigdís og Helgi voru ekki sammála um gildi bréfsins sem Gunnar Bragi Sveinsson afhenti formanni ESB í Slóvakíu í síðustu viku. 

Líkt og í umræðunni á Alþingi í dag snýst málið um hvort þingsályktunartillagan frá 2009 - þar sem Alþingi samþykkti að sækja um aðild að ESB - væri enn í gildi.

Vigdís sagði búið að flækja þetta mál alltof mikið - þingsályktunartillögur væru ekki bindandi á milli þingkosninga, Helgi Hrafn sagði þvert á móti að þingsályktunartillögur væru í gildi á milli kjörtímabila.

Erna Bjarnadóttir, stjórnarmaður í Heimssýn, sagði bréf utanríkisráðherra vera fullnaðaryfirlýsingu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hún sagði það furðulegt að ESB þyrfti að samþykkja þetta eitthvað frekar.

Jón Steindór, formaður samtakanna Já Ísland, gagnrýndi framkomu ráðherra í þessu máli. Talað hefði verið um að leggja fram þingsályktunartillögu og þingið hefði staðið í þeirri trú að slík tillaga væri væntanleg. En síðan hefðu menn farið með bréf til útlanda sem enginn skildi eins. 

Vigdís sagði þessa ríkisstjórn einfaldlega vera að þrífa upp skítaverkin eftir síðustu ríkisstjórn. „Mér er alveg sama þótt við þurfum að taka þetta skítaverk að okkur - þetta er leið sem er búið að finna út núna - málið er löngu dautt og það er hvorki þingvilji né vilji hjá þjóðinni.“

Helgi Hrafn sagðist hafa áhyggjur af því að forsætisráðherra, utanríkisráðherra, Höskuldur Þórhallsson og nú Vigdís Hauksdóttir vildu slíta þessum viðræðum - alveg sama hvað.

 

ATH: Það getur tekið smá tíma fyrir myndbandið að hlaðast upp.

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV