Vígahnöttur brann upp fyrir ofan Öræfajökul

18.12.2019 - 15:55
Mynd: Verslunartækni / Verslunartækni
„Þetta er geggjað,“ segir Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins og stjörnufræðikennari, um myndskeið sem náðist af vígahnetti brenna upp yfir Öræfajökli á fimmtudagskvöldið. Myndskeiðið náðist á öryggismyndavél fyrirtækisins Mobotix sem beint er að jöklinum.

„Þetta er loftsteinn, en þegar þeir verða svona skærir eru þeir kallaðir vígahnettir,“ útskýrir Sævar. „Hann er mjög bjartur og kemur greinilega mjög hratt inn. Lofsteinar byrja að brenna í um það bil 100 km hæð og halda svo áfram að fuðra upp,“ segir Sævar. Hann giskar á að þessi steinn hafi verið á stærð við tennisbolta, þótt erfitt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá segir hann mögulegt að lítil brot úr steininum hafi lent einhvers staðar á Íslandi.

Sævar segir erfitt að segja til um hvar vígahnötturinn hafi nákvæmlega komið niður, en lofsteinadrífa hafi orðið þetta kvöld og að líklegt sé að vígahnötturinn sé úr þeirri drífu.

Myndskeiðið náðist kl. 22:57 á fimmtudagskvöldið, á myndavél sem sett var upp var upp á Fagurhólsmýri í samstarfi við Veðurstofuna. Vélin var sett upp snemma árs 2017, þegar Öræfajökull fór að bæra á sér.

Hér má lesa nánar um loftsteina.

 

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV