Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Viðvaranir vegna veðurs um nær allt land

23.01.2020 - 10:26
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Appelsínugular og gular viðvaranir eru í gildi um nær allt land. Vetrarfærð er í flestum landshlutum. Flugferðum er ýmist frestað eða aflýst.

Vetrarfærð er í flestum landshlutum og víða slæmt ferðaveður um vestan og norðvestanvert landið.

Suðvestan hríð og appelsínugul viðvörun er til klukkan 15 á Vestfjörðum. Þar er stormur eða rok, 20-28 m/s, hvassast á fjallvegum. Talsverður éljagangur með skafrenningi, lélegu skyggni og slæmum akstursskilyrðum. Þar er mjög slæmt ferðaveður og öllum flugferðum um Ísafjörð hefur verið aflýst.

Annars staðar á landinu, að frátöldu Austurlandi og Suðausturlandi er gul veðurviðvörun fram eftir degi. Þar er suðvestan hríð með hvassviðri eða stormi og vindhraði á bilinu 18-23 m/s. Þar má líka búast við versnandi akstursskilyrðum og líkur á samgöngutruflunum og lokunum á vegum, einkum fjallvegum. 

Röskun á flugferðum

Öllu innanlandsflugi hefur verið frestað og verður næst athugað með flugferðir klukkan 13:30. Flugferðum til Ísafjarðar og Grænlands í dag hefur verið aflýst.  Öllum ferðum Icelandair fram á kvöld hefur verið aflýst. Önnur flugfélög hafa flest frestað flugi fram á kvöld eða aflýst.