Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Víðtækt rafmagnsleysi og varaafl ræst í Vestmannaeyjum

14.02.2020 - 06:57
Innlent · Landsnet · rafmagnsleysi · RARIK · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: RARIK
Mynd með færslu
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur.  Mynd:
Landsnet vinnur nú að því að ræsa varaafl í Vestmannaeyjum til öryggis og til að tryggja stöðugri rekstur. Víða eru rafmagnstruflanir á Suðurlandi.

Samkvæmt tilkynningu frá RARIK eru nú víðtækar rafmagnsbilanir:

Á Vesturlandi er vitað um tvær truflanir. Álma að Húsafelli er úti. Þar eru brotnar slár. Hvalfjarðarlína er úti og norður hluti Hvalfjarðar og Svínadalur er rafmagnslaus. Mikil selta er á svæðinu.

Á Suðurlandi er vitað um tíu truflanir. Rafmagnslaust er á nokkrum bæjum undir Eyjafjöllum. Rafmagnslaust er í Vík og í Mýrdal en rafmagn er skammtað í Vík. Íbúar eru beðnir um að spara rafmagn. Rafmagnslaust er í uppsveitum Árnessýslu, þ.m.t. hluti Biskupstungnanna og frá Reykholti að Laugarvatni og Svínavatni. Rafmagnslaust er við Þingvallavatn frá Miðfelli að Mjóanesi. Þá er rafmagnslaust í Holtum, Landsveit og upp með Heklubæjum. Einnig er rafmagnslaust í Landeyjum. Línan milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur er úti og þar með er rafmagnslaust í Álftaveri og hluta Skaftártungna. Aðstæður á Suðurlandi eru mjög erfiðar og ekki hefur verið hægt að hefja truflanaleit. Vinnuflokkarnir eru tilbúnir um leið og rofar til í veðrinu.

Á Austurlandi er sveitarfélagið Hornafjörður rafmagnslaust, þ.m.t. Höfn, vegna truflunar í flutningskerfinu.

Verið er að leita að bilun á þessum stöðum, þar sem hægt er vegna veðurs.

Helga Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá RARIK, segir að búið sé að keyra upp varaafl í Vík svo þar eru minni rafmagnstruflanir en áður. Þar eru íbúar beðnir um að takmarka rafmagnsnotkun.

Helga segir að RARIK sé með mannskap á öllum stöðum en það verði að taka mið af veðrinu með það hvenær hægt verði að fara út að leita að bilunum. Á meðan séu truflanir á Suður- og Vesturlandi.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 9 með frekari upplýsingum um rafmagnsleysi.