Víðtækt rafmagnsleysi í Árneshreppi

15.01.2020 - 21:36
Þakið fauk af Valgeirsstöðum í Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum í aðventulægðinni 2019.
 Mynd: Aðsend
Rafmagn fór af í Árneshreppi eftir hádegi í dag og óvíst hvenær hægt verður að ráðast í bilanaleit. Það verður gert við fyrsta tækifæri samkvæmt tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi, býr í Djúpavík og hefur þar rafmagn og því er gert ráð fyrir því að bilun hafi átt sér stað norðan við Djúpuvík. Eva segir í samtali við fréttastofu að ekki hafi verið mokað í hreppnum síðan fyrir áramót og því verði erfitt að ráðast í bilanaleit á svæðinu. Mokstur er háður því að ekki sé hætta á snjóflóðum, en óvissustig hefur verið vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum síðustu daga.

Eva segist vonast til þess að íbúar í hreppnum hafi útvarpstæki til taks sem ekki þarf að stinga í samband, enda er síma- og netsamband einnig úti á svæðinu. 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi