Í dag slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri grænna, Framsóknar, Samfylkingar og Pírata. „Ég óska eftir ríkisstjórn með breiðri skírskotun. Fólk hefur óskað eftir því að hér verði mynduð ríkisstjórn hið fyrsta og að hér verði stöðugleiki,“ segir Þorgerður Katrín. Hún kveðst sjá fyrir sér stjórn fjögurra til fimm flokka, sem komi sér saman um meira en minnsta mögulega samnefnara.
Verði Viðreisn við þetta stjórnarmyndunarborð, mun flokkurinn setja það sem skilyrði að gengið verði til atkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við ESB á næsta kjörtímabili?
„Á þessu stigi tel ég rétt að flokkar setji ekki fram nein skilyrði. Ábyrgðin er að koma saman stjórn. Síðan er stóra myndin sú, hvort sem flokkar eru innan eða utan stjórnar, það eru nýju vinnubrögðin. Við þurfum að passa okkur á því að vera málefnaleg bæði í meirihluta sem minnihluta.“
Gott fólk í öllum flokkum
Þorgerður Katrín segir nokkra flokka geta náð saman um stóru málin og vera burðugir til að takast á við óvæntar uppákomur á næsta kjörtímabili. „Það er mikilvægt að það eiga sér stað samtöl og ég sé gott fólk í öllum flokkum.“ Aðspurð að því hvort óformlegar viðræður við hana hafi farið fram í dag segir Þorgerður að ýmis samtöl hafi átt sér stað, eins og gengur.
Segir mikilvægt að koma saman stjórn
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ætlar að heyra í forystufólki allra flokka varðandi næstu skref við myndun ríkisstjórnar. Þorgerður Katrín segir mikilvægt að forystufólkið tali saman. „Ég segi fyrir mína parta að hvort sem það er Katrín Jakobsdóttir, sem ég ber fyllsta traust til, eða Bjarni Benediktsson, þá þurfum við fyrst og fremst að koma okkur saman um stjórn.“
Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.