Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Viðrar vel til viðgerða

17.02.2020 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Guðmundur Bergkvist
Viðgerðir á skemmdum á rafmagnslínum eftir óveðrið í síðustu viku hafa gengið vel, segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets. Starfsmenn Landsnets notuðu helgina í að flytja efni á þá staði þar sem þarf að gera við línur og hófu viðgerðir í gær.

„Við höfum verið heppin með veður,“ segir Steinunn um gang viðgerða eftir óveðrið í síðustu viku.

Hvolsvallalína 1 er eina rafmagnslínan sem er ennþá úti. Hún veldur þó ekki rafmagnsleysi þar sem hægt er að flytja rafmagn til notenda með öðrum línum. Búist er við því að viðgerð á henni ljúki í kvöld eða í síðasta lagi á hádegi á morgun. Tólf stæður brotnuðu í óveðrinu sem gekk yfir landið á föstudag. 

Helga Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar hjá RARIK, sagði í samtali við RÚV í morgun að viðgerðir á dreifikerfi gangi vel. Hún segir að þeim ljúki mun fyrr en áætlað var í fyrstu.