Viðmót græna kallsins veldur gremju

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Reykjavíkurborg hefur síðastliðið ár unnið að því að bregðast við ábendingum gangandi og hjólandi vegfarenda sem eru gramir vegna græna kallsins og frammistöðu hans víða um borgina. Ólík sjónarmið eru um hvort gangandi og hjólandi sé gert jafnhátt undir höfði og akandi. 

Óheppnir bíða í meira en eina og hálfa mínútu

Flest kynnumst við græna kallinum á barnsaldri, okkur finnst við þekkja hann en hann er ekki allur þar sem hann er séður. Viðmót hans er misjafnt bæði eftir gatnamótum og tíma dags, stundum þarf að bíða lengi eftir honum, stundum stutt og hann logar mislengi.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Grænir kallar.

Stærstum hluta umferðarljósanna á höfuðborgarsvæðinu er stýrt miðlægt til að greiða fyrir umferð og stillingarnar eru misjafnar eftir tíma dags. Einna lengst getur biðin orðið á Sæbraut við Kirkjusand. Þeir heppnustu bíða ekki neitt, meðalvegfarandi þarf að bíða í 47 og hálfa sekúndu og þeir óheppnustu í 95 sekúndur, allt eftir því hvenær er þrýst á hnappinn. Sumir missa þolinmæðina og fara yfir á rauðu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Sumir þurfa að bíða í 95 sekúndur.

Skynjarar námu ekki hjólin

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Árni Davíðsson.

Fyrir tæpu ári réðust Landssamtök hjólreiðamanna í átaksverkefni með Reykjavíkurborg og óskuðu eftir ábendingum um gatnamót sem reyndust hjólandi og gangandi hvimleið. „Þetta kemur til vegna gremju hjólreiðamanna yfir svokölluðum umferðarstýrðum umferðarljósum,“ segir Árni Davíðsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna. Umferðarstýringin skynjaði ekki reiðhjólin og þeir fengu því ekki grænan kall. Þetta hefur sums staðar verið lagað, annars staðar ekki. Það bárust fleiri ábendingar, sumir kvörtuðu yfir því að hnapparnir hefðu stundum engin áhrif og öðrum gramdist að þurfa að bíða tvisvar, fyrst eftir því að leggja af stað yfir götuna, svo aftur á umferðareyju. Árni segir að það sé krefjandi fyrir sum hjól að aka yfir afgirtar eyjur, enda margar krappar beygjur á þeim. „Það er líka óþægilegt að bíða þarna í hávaða og mengun og ekki síður á veturna, þá er þetta varla rutt, þetta verða bara skaflar.“ 

Á fullu að gera og græja

Sumt hefur verið lagað, og annars staðar eru úrbætur á dagskrá. „Já já, við höfum heyrt að sumt er í ólagi en við erum á fullu að gera okkar besta,“ segir Grétar Þór Ævarsson, verkefnastjóri hjá borginni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Grétar Þór Ævarsson

Fólk beið óralengi og ekkert gerðist

Nú hafa sums staðar verið sett upp skilti á gatnamótum til að láta fólk vita að það þurfi að ýta á hnappinn. Á gatnamótum Háaleitisbrautar og Bústaðavegar kemur græni kallinn af sjálfu sér ef það er umferð um hliðargötu en ef það er enginn umferð lætur hann ekki sjá sig nema ýtt sé á hnappinn. Það kom fyrir að fólk ýtti ekki og beið óralengi, kannski ekki furða, því sums staðar stoðar ekkert að ýta á hnappinn.

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / Kristinn Þeyr Magnússon
Nýja skiltið.

Það stendur til að fjarlægja þá gagnslausu og setja í staðinn hnapplaus box, sem gefa eingöngu frá sér hljóðmerki. Fleira er í undirbúningi og á morgun á að taka í gagnið niðurteljara á gatnamótum Lækjargötu og Bankastrætis þannig að fólk viti hversu langt er í þann græna. 

Það á bara að komast yfir hálfa götuna

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Vegfarendur á leið yfir Sæbraut.

Skemmst loga ljósin á gatnamótum Höfðabakka og Bæjarháls, í aðeins sex sekúndur. Að sögn borgarinnar eru það leifar frá gamalli tíð og stendur til að endurnýja þau á næsta ári þannig að þau logi í minnst sjö. Oft logar græni kallinn stutt en það er heldur ekki ætlunin að hann logi allan þann tíma sem það tekur vegfaranda að komast yfir götuna. „Ég held að margir geri sér hreinlega ekki grein fyrir því hvernig ljósin virka almennt,“ segir Grétar Þór. 

Gert sé ráð fyrir því að vegfarandi komist yfir rúmlega hálfa götuna á grænu ljósi, svo taki við rýmingartími áður en bílaumferð hefst á ný. Sá sem leggur af stað á síðustu sekúndu græna kallsins á að ná að fara yfir götuna þótt það sé kominn rauður kall. 

Skipta þurfi umferðarlotunni bróðurlega

Árni hjá Landssamtökum hjólreiðamanna  vill sjá Miklubraut lagða í stokk en myndi í millitíðinni vilja að liðkað væri fyrir þannig að hjólandi kæmust yfir gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í einni lotu. 

Grétar Þór segir að við stór gatnamót sé mælt með miðeyjum, öryggisins vegna. Það taki tíma að fara yfir þau og það sé ekki hægt að gefa gangandi og hjólandi vegfarendum allan græna tímann, lotulengdin sé kannski 90 sekúndur og þeim þurfi að deila bróðurlega á milli allra. „Það er ákveðið öryggi í því að þú ferð yfir einn umferðarstraum í einu, bílstjórar þurfa ekki að bíða eins lengi og verða ekki pirraðir á rauðu ljósi.“

Hallar á einhverja?

En þurfa gangandi og hjólandi almennt að bíða lengur en bílandi? Verða þeir undir? Árni er á því. „Já, mér finnst það nú reyndar, það er svolítið mikið gert fyrir einkabílinn í þessari borg og á Íslandi.“ Grétar Þór er ekki á sama máli, „Það fer rosalega eftir gatnamótun en þegar við ákveðum ljósastillingarnar reynum við að gera öllum ferðamátum jafnhátt undir höfði.“ Grétar segir að síðustu ár hafi verið unnið að því að láta græna kallinn loga lengur, þannig er nú gert ráð fyrir að fólk komist yfir 75% götunnar áður en rauði kallinn birtist og rýmingartími hefst, áður hafi einungis verið gert ráð fyrir 60%. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi