Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Viðkvæmt ástand í fjósum vegna rafmagnsleysiss

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Rafmagnsleysi og flökt undanfarna tvo daga hefur haft mikil áhrif á atvinnulíf og valdið tjóni víða. Bændur hafa þurft að handmjólka kýr þar sem mjaltabúnaður krefst rafmagns. Sum fjós eru búin varaafli en mjög víða er ekki slíkur búnaður til staðar.

Í Svarfaðardal, Húnavatnssýslum, Ljósavatnsskarði og Fljótsheiði og víðar er enn rafmagnslaust. Varðskipið Þór er nú á leið til Dalvíkur þar sem til stendur að nýta skipið sem rafstöð fyrir bæinn. Skipið getur haldið meðalstóru sveitarfélagi gangandi í neyðartilvikum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Þetta gagnist þó ekki í Svarfaðardal þar sem eru brotnir staurar og því þarf að leysa það. Bárðardalur fór út í morgun, Tjörnes er rafmagnslaust og rafmagni er skammtað í Öxarfirði og Kelduhverfi. 

Kúabændur í Ljósavatnsskarði og Fljótsheiði eru í miklum vanda vegna rafmagnsleysis. Þar liggur rafmagnsstrengurinn í jörð og RARIK hefur sagt bændum að búa sig undir það versta, jafnvel margra daga rafmagnsleysi. Einstaka bæir eru með vararaflstöð en ekki allir, því fóru bændur í Fnjóskadal af stað með traktorsknúna rafstöð til að lána kollegum í Ljósavatnsskarði þar sem ekki hefur verið hægt að mjólka í hálfan sólarhring og kýrnar orðnar mjög órólegar. Ófært er á milli bæja og þurftu bændur að brjótast í gegnum mannhæðar há höft á veginum.

Mynd með færslu

Ekki mjólkað síðan á þriðjudagsmorgun

Í Húnavatnssýslum er rafmagnsleysið búið að vera viðvarandi í tæpar 45 klukkustundir. Á Bessastöðum hefur ekki verið mjólkað síðan á þriðjudagsmorgun, eða í rúma tvo sólarhringa. Guðný Helga Björnsdóttir bóndi segir að kýrnar séu ekki farnar að veikjast. Myrkur sé í fjósinu og því telji þær að það sé mið nótt.

„Kýrnar eru hálfsofandi. Þær fá ekkert kjarnfóður þar sem kjarnfóðurbásinn þarf rafmagn. Við erum ekki búin að mjólka síðan þriðjudagsmorgunn en þær eru ekki farnar að veikjast. Við erum nú þegar búin að hella niður 3000 lítrum,“ segir Guðný.

Guðný segir að útséð sé með að það minnki í kúnum í framhaldinu. Bilunin hafi varað óvenjulega lengi. Íbúðarhúsið sé farið að kólna. Þar sé sex stiga hiti sem sé áhyggjuefni í yfirvofandi hörkufrosti.

Mynd með færslu
Rafmagnslaust hefur verið á bæjum í Hrútafirði í rúma tvo sólarhringa

Mikið hringt í morgun

Helga Gunnarsdóttir, dýralæknir á Akureyri, segir að síminn sé búinn að hringja mikið í morgunsárið. Það komi hins vegar í ljós þegar líður á daginn hver nákvæm staða er á búfénaði. Fjarskipti liggja enn að stórum hluta niðri í Svarfaðardal og hefur fréttastofa ekki náð tali af bændum þar.

Ekki þurft að fara á vélasleða á milli ennþá

Helga segir að bændur viti sínu viti, að dýralæknar komist ekki til þeirra þegar ófærðin er eins mikil og nú er. Ekki hafi þurft að nota vélsleða til að koma dýralæknum á milli staða.

Kýr eru mjólkaðar að minnsta kosti tvisvar á sólarhring. Í fjósum þar sem mjaltaþjónn er til staðar geta kýr í hárri nyt (kýr sem mjólka mikið) látið mjólka sig oftar til að létta á júgrinu. Helga líkir því saman við blöðru sem þenst út þegar kýr komast ekki til mjalta í lengri tíma.

„Nýbornar kýr og nytháar eru í mestri hættu að veikjast. Þær geta fengið hita bólgur með tilheyrandi verkjum ef þær eru ekki mjólkaðar reglulega. Þær hætta að éta og með tímanum minnkar nytin í þeim og framleiðslan þar með,“ segir Helga.

Hún segist ekki vita til þess að gæludýr á Akureyri hafi orðið fyrir tjóni í veðrinu. Hins vegar sé enn mikil ófærð og staðan skýrist þegar líður á daginn og næstu daga.

Mynd með færslu
Mjaltaþjónar sjá um að mjólka kýr allan sólarhringinn