Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Víðir fluttur á hótel

18.03.2020 - 20:44
Mynd: Skjáskot / RÚV
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, sem staðið hefur í ströngu ásamt fleirum í baráttunni við COVID-19 er fluttur á hótel. Þessu greindi hann frá í umræðuþætti RÚV um COVID-19 í kvöld. „Ég til dæmis bý við það núna að konan mín og dóttir eru í sóttkví á mínu heimili. Ég er fluttur á hótel þannig að ég er ekki að hitta þau,“ sagði Víðir þegar þáttarstjórnendur spurðu hann og Ölmu Möller landlæknir hvernig passað væri upp á að framvarðasveitin smitaðist ekki.

Alma landlæknir sagðist eiga tvo fjölskyldumeðlimi á sitthvorum staðnum sem væru í sóttkví. „Auðvitað reynum við að passa upp á okkur sjálf. Það eru mjög strangar umgengnisreglur niðri í Skógarhlíð.“

Víðir og Alma sögðu bæði að þau væru ekki hrædd um eigin hag eða sinna. Alma sagðist ekki hugsa málin þannig. Víðir sagðist ekki hræddur en hafa áhyggjur af fólki í áhættuhópum, ekki aðeins þeim sem standa honum næst heldur öðrum líka.

„Móðir mín er 96 ára og það er búið að slá skjaldborg um hana,“ sagði Alma. „Ég fer víða, þannig að ég heyri í henni í síma og svo sér hún mig í sjónvarpinu.“

Alma og Víðir svöruðu fjölda spurninga sem almenningur sendi inn í gegnum RÚV.is. Upptaka af svörum þeirra birtist í þessari frétt innan skamms.